Icewhale, samtök hvalaskoðunarfyrirtækja, fór í gær fyrir leiðangri í Faxaflóa þar sem reynt var að losa hnúfubak við veiðarfæri sem hann hafði flækst í. Þrír rib-bátar, harðbotna vélbátar, voru notaðir við leiðangurinn, þar af einn frá Landhelgisgæslunni og tveir frá hvalaskoðunarfyrirtækjunum Special Tours og Whale Safari.
María Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá Icewhale, var með í leiðangrinum og segir hún að fyrst hafi sést til hnúfubaksins á föstudagsmorgun en þá hafi hann verið langt út á flóa. Fyrstu myndir sem bárust þá af hvalnum hafi hins vegar ekki verið nægilega góðar og ekki auðvelt að sjá út frá þeim hversu flæktur hvalurinn var í veiðarfærin.
„Það var ekki gott veður á föstudag og ákváðum við þá að hafa samband við sérfræðinga úti, því við vorum að renna blint í sjóinn,“ segir María en frá sérfræðingum fengust ýmis ráð um hvernig ætti að nálgast dýrið þar sem verkefni af þessum toga geta reynst hættuleg.
„Icewhale átti frumkvæði að því að gera eitthvað en fyrirtækin sköffuðu báta og mannafla. Svo höfðum við samband við Landhelgisgæsluna og voru allar aðgerðir í gær í höndum Gæslunnar,“ segir María.
Hnúfubakurinn var ekki langt úti í gær þegar leiðangursfarar nálguðust hvalinn, sem virðist vera með stórt sár við sporðinn að sögn Maríu. „Hann virtist nokkuð hress miðað við aðstæður. Hann getur borðað og hreyft sig, en sýnir ekki mikið sporðinn,“ segir hún.
María segir að samkvæmt upplýsingum frá erlendum sérfræðingum þarf að öllum líkindum nokkrar tilraunir til þess að ná veiðarfærunum af hvalnum. „Gæslan náði einhverju en ekki þessu stóra og mikla. Það gekk ekki nógu vel að nálgast hann og gerði það björgunaraðgerðirnar erfiðari,“ segir María en aðgerðir fóru fram á bátunum, og því var til að mynda ekki kafað við hvalinn.
„Það er síður mælt með því að fara út í sjóinn. Hann var órólegur þegar það var verið að reyna að nálgast hann en hann róaðist þegar aðgerðunum lauk,“ segir María.
Hvalaskoðunarfyrirtækin þrjú við Reykjavíkurhöfn bíða þess nú að sjá hvalinn til þess að meta ástand hans, og hvort frekari aðgerða sé þörf. María segir að ef hvalaskoðunarfyrirtækjunum tekst að verða sér úti um nægilega góð verkefni þá verði Landhelgisgæslan ekki ræst aftur út, en þeir verði þó með í upplýsingaflæðinu.
Hún segist ekki geta svarað því hver kostnaður hvalaskoðunarfyrirtækjanna vegna björgunaraðgerðanna sé, en bendir á að kostnaðarliðirnir feli í sér viðhald á bátum, olíukostnað og laun starfsmanna, sem flestir hafi þó gefið vinnu sína að hún taldi.
„Þetta er hugsjónastarf. Fyrirtækin eru að sýna þessi dýr og það er erfitt að horfa upp á þau í þessu ástandi.“