Vilja að selkópurinn fái að lifa

Selkópur slapp í gærmorgun út úr Húsdýragarðinum og ráfaði þaðan …
Selkópur slapp í gærmorgun út úr Húsdýragarðinum og ráfaði þaðan um tvo kílómetra inn á tjaldsvæði í Laugardal. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er svolítið eins og skemmtileg gamanmynd sem endar á mjög dramatískan hátt. Það bara passar ekki. Þetta er eins og að Titanic endinum hefði verið smellt aftan við Dumb and Dumber,“ segir Haukur Viðar Alfreðsson, textasmiður á auglýsingastofunni Brandenburg og stofnandi Facebook-hópsins „Þyrmið lífi sprettharða selkópsins“.

Hann segir landsmenn hafa skemmt sér yfir fréttum af hetjunni miklu, selkóp sem strauk frá Húsdýragarðinum og fannst við tjaldsvæðið við Laugardag. „Svo fær maður það framan í sig í morgun að hann muni enda í maga refs. Það er svolítið leiðinlegt,“ segir hann en bætir við að hann efist ekki um að Húsdýragarðurinn hafi sín rök fyrir því að þetta sé besta lausnin.

Frétt mbl.is: Selur á tjaldstæðinu í Laugardal

Aðspurður hvað sé hægt að gera við kópinn, nefnir Haukur tvær leiðir. „Annars vegar að sleppa honum í sjóinn, er þeir segja að það sé ekki ráðlagt og að hann muni bara deyja. En hann er búinn að sýna fram á það að hann er djöfulli seigur,“ segir Haukur og bætir við að verði sé að vanmeta kópinn. „Hins vegar er Guttormur fallinn frá. Er ekki kominn tími á nýja hetju í húsdýragarðinn,“ segir Haukur sem er þó ekkert sérstaklega hrifinn af því að hafa dýr til sýnis, líkt og er gert í Húsdýragarðinum.

„Hægt að enda þessa sögu á betri máta“

Hópurinn var stofnaður í morgun og er fjöldi meðlima þegar kominn yfir 200. „Mér finnst þetta ekkert gríðarlegur fjöldi. Ég vil sjá þetta rjúka í hæstu hæðir,“ segir Haukur en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hverju síðan komi til með að skila.

„Ég var ekki búinn að hugsa þetta það langt. Ef þeir [forsvarsmenn Húsdýragarðsins] eru til í að hlusta á einhvern sem vill færa rök fyrir því hvers vegna þessi selur eigi að lifa, þá er ég viss um að það fólk sé til,“ segir Haukur. Hann hefur þó einnig heyrt þau rök að það sé verra líf í dýragarði en að vera slátrað.

„Ég væri frekar til í að lifa í dýragarði en að vera slátrað. En það er bara ég, ef vilji er fyrir hendi er hægt að enda þessa sögu á betri máta.“

Haukur Viðar Alfreðsson, stofnandi Facebook-hópsins sem vill þyrma lífi kópsins …
Haukur Viðar Alfreðsson, stofnandi Facebook-hópsins sem vill þyrma lífi kópsins sem strauk frá Húsdýragarðinum. Ljósmynd/Haukur Viðar Alfreðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert