Maðurinn mætti í læknisrannsókn

Talið er að hælisleitandinn hafi smitað nokkrar konur af HIV.
Talið er að hælisleitandinn hafi smitað nokkrar konur af HIV. mbl.is/Rósa Braga

„Hann fór í læknisrannsókn en mætti ekki í blóðprufurannsóknir,“ segir Þórólfur Guðnason, staðgengill sóttvarnalæknis, í samtali við mbl.is og vísar í máli sínu til nígeríska hælisleitandans sem grunaður er um að hafa smitað konur hér á landi af HIV.

Að sögn hans eiga allir hælisleitendur að fara í sams konar læknisrannsókn og þeir sem sækja um dvalarleyfi. Er hælisleitendum því bent á að fara í læknisskoðun skömmu eftir komuna til landsins.

„Í verklaginu kom upp ákveðinn veikleiki sem leitt getur til þess að menn mæti ekki í blóðrannsóknir þótt þeir hafi mætt í læknisrannsóknir. Og það er það sem við erum að reyna að gera núna - að samræma verklagið þannig að þetta verði eins gott og mögulegt er,“ segir Þórólfur.

Að sögn Þórólfs hafa heilbrigðisyfirvöld engin úrræði til að fá einstaklinga í rannsóknir nema uppi sé rökstuddur grunur um að viðkomandi sé haldinn einhverjum sjúkdómi. „Í lögum eru aðgerðir sem menn geta gripið til, en það er ekki alveg ljóst að hægt sé að grípa til þeirra nema að menn hafi rökstuddan grun um sjúkdóm.“

Spurður hvort enn sé verið að rekja möguleg smit kveður Þórólfur já við. „Sú vinna er enn í gangi,“ segir hann og bætir við að ekki sé tímabært að gefa upp hvort fleiri hafi smitast af HIV eftir samneyti við manninn.

Samkvæmt fyrri heimildum Morgunblaðsins hafa tvær konur greinst með sjúkdóminn. 

Maðurinn hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 20. ágúst næstkomandi að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Var það gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna, síbrota og hættusjónarmiða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert