Verður afglæpavæðing fyrir valinu?

AFP

Um helgina fer fram heimsþing mannréttindasamtakanna Amnesty International í Dublin á Írlandi. Þar verður meðal annars rædd hugmynd að stefnumótun í mansalsmálum sem felur í sér afglæpavæðingu vændis.

Í mars á þessu ári var drögum að nýrri stefnu lekið í fjölmiðla. Vakti það talsverða athygli enda hafa samtökin til þessa ekki stutt afglæpavæðingu. Í drögunum kemur fram að í afglæpavæðingu felist ekki einungis afglæpavæðing á sölu á vændi líkt og hefur verið gert í Noregi, Svíþjóð og á Íslandi, heldur felur stefnumörkunin í sér að allir þættir vændis verða lögleiddir í þeim tilgangi að vernda réttindi þeirra sem vændi stunda. Er því lagt til að hvorki kaup né sala á vændi verði ólögleg. Þá er líka gert ráð fyrir að það verði ekki refsivert að reka vændishús. Á móti kemur að áfram verður mansal ólöglegt auk þess sem seljendur vændis sem eru undir lögaldri verði skilgreindir sem fórnarlömb kynferðisofbeldis. Einnig er lagt til að ríkjum beri skylda til að veita þeim sérstakan stuðning sem vilja hætta að stunda vændi.

Höfundar draganna telja að ólögmæti vændis sé ein helsta ástæða þess að seljendur vændis séu beittir ofbeldi. Í þeim ríkjum þar sem vændi er ólöglegt getur það reynst fyrrverandi seljendum vændis ómögulegt að finna aðra vinnu þar sem þeir eru þá með óhreina sakaskrá. Fulltrúar Amnesty á Indlandi telja einnig að ólögmæti vændis leiði til þess að erfitt er að takmarka útbreiðslu HIV með skipulögðum hætti.

Ólögmæti vændis er einnig talið vinna gegn hagsmunum vændisseljenda þar sem þeir séu hræddir við að leita til lögreglunnar. Á það ekki bara við um vændisseljendur í þeim löndum þar sem vændi er ólöglegt, heldur einnig í þeim ríkjum þar sem sala á vændi er lögleg en kaup ólögleg þar sem vændisseljendur þora ekki að leita til lögreglunnar af hræðslu við að uppljóstra um kúnnahóp sinn. 

Í Huffington Post er einnig bent á að seljendur vændis hafi í mörgum löndum einnig kvartað sérstaklega yfir lögreglunni og því hvernig hún tekur á málunum. Sem dæmi greindi bandarísk kona frá því í New York Times árið 2012 að við húsleit heima hjá henni hafi lögreglumaður heimtað að hún veitti honum þjónustu sína. Annars myndi hann handtaka hana. Svipaðar sögur hafa borist frá öðrum löndum.

Ekki allir eru hrifnir af drögunum sem rædd verða í Dublin um helgina. Hópur leikkvenna í Hollywood rituðu fyrr á þessu ári opið bréf þar sem Amnesty var hvatt til þess að samþykkja ekki umræddar breytingar. Bréfið var meðal annars stílað á Salil Shetty aðalritara Amnesty International. Undir bréfið skrifuðu meðal annars Meryl Streep, Kate Winslet og Emma Thompson.

„Dólgum gefin friðhelgi“

Í gær sendu sjö íslensk kvenréttindasamtök frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem fulltrúar Íslands á heimsþinginu um helgina eru hvattir til þess að kjósa gegn tillögunni. Segir þar meðal annars:

Ef Amnesty International mælir með að því að vændi verði gefið frjálst, er dólgum og vændiskaupendum þar með gefin friðhelgi og mannréttindi kvenna í vændi fótum troðin. Slík stefna myndi skaða þann mikilvæga trúverðugleika og það traust sem Amnesty nýtur í dag. Það má ekki gerast.

Undir yfirlýsinguna skrifa Stígamót, Kvennaathvarfsið, Kvennaráðgjöfin, Samtök kvenna af erlendum uppruna, Kvenfélagasamband Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, og Femínistafélag Íslands. 

Ekki kallað eftir umsögnum en hlustað á sjónarmið

Hörður Helgi Helgason, formaður Íslandsdeildar Amnesty er nú þegar mættur til Dublinar ásamt öðrum fulltrúum Íslandsdeildarinnar, en deildin á fimm fulltrúa á heimsþinginu. Hann segir að á þinginu fari fram umræða um drögin en að það sé svo í höndum stjórnar Amnesty á heimsvísu að taka ákvörðun um það hvort stefnubreyting verði eða ekki. 

„Fulltrúar á þinginu eiga ekki að lýsa sinni persónulegu skoðun heldur reyna eftir föngum að koma á framfæri þeirri afstöðu sem deildin í heild sinni hefur og þau sjónarmið sem hafa komið upp innan deildarinnar. Stjórnin hittist áður en haldið er á heimsþing og ræðir þau mál sem þar eru á dagskrá og það var gert fyrir þingið.“

„Þetta tiltekna mál er óvanalegt mál því það var sett á dagskrá til að á þinginu yrði haldin umræða frá öllum hliðum og tekin afstaða til draganna, en það er ekki þingsins að taka lokaákvörðun heldur er það stjórn alþjóðasamtakanna, í þessu sem öðrum málum sem varða stefnu í einstaka málum. Á þessu þingi fer vonandi fram yfirveguð og upplýst umræða sem á að skila stjórninni leiðbeiningum um hvert skal halda. Þess vegna hefur Íslandsdeildin lagt sig í líma við að koma með opinn huga á þingið og mun hún hlusta á sjónarmið en hrapa ekki að ályktunum,“ segir Hörður.

Mismunandi aðstæður í hnattrænu samhengi

Hann bendir einnig á að fulltrúar á þinginu koma víðs vegar að og því viðbúið að mörg mismunandi sjónarmið muni koma fram. „Það eru skiptar skoðanir og mörg álitaefni uppi. Í hnattrænu samhengi eru aðstæður í ríkjum ólíkar og viðbúið að mismunandi deildir komi með ólíkar skoðanir. Verkefnið okkar er að sjá hvort við getum náð samtöðu um tiltekna niðurstöðu og staðið sem heil samtök að baki henni.“

Hörður segir að athugasemdum félaga deildarinnar verði komið á framfæri á þinginu en málið sé ekki þess eðlis að ákveðið hafi verið að kalla eftir umsögnum frá öðrum samtökum og þeim síðan komið á framfæri á þinginu. „Það vill hins vegar svo til að kvennasamtök á Íslandi hafa í gegnum tíðina verið afskaplega mikilvægir og sterkir samherjar okkar í átaki sem við stöndum árlega fyrir í baráttu gegn ofbeldi gegn konum. Það átak og þá vitundarvakningu sem hefur átt sér stað á síðastliðnum áratug þökkum við ekki síst þessu sterka samstarfi við þessi samtök. Þegar þau leituðu til okkar og vildu koma fram sinni afstöðu til tillögunnar þá brugðumst við að sjálfsögðu við því og hlustuðum á þau rök og tökum mikið mark á því sem þau segja og munum koma þeirri afstöðu á framfæri,“ segir Hörður.

Ómögulegt er að segja til um hvenær endanleg afstaða stjórnar Amnesty á heimsvísu muni liggja fyrir eftir þingið en stjórnin kemur saman annan hvern mánuð eða ársfjórðungslega. 

Meryl Streep er á meðal þeirra kvenna sem hafa skrifað …
Meryl Streep er á meðal þeirra kvenna sem hafa skrifað undir bréf til forystumanna Amnesty International þar sem samtökin er hvött til þess að samþykkja ekki stefnubreytinguna sem lögð er til í drögunum.
Salil Shetty aðalritari Amnesty International.
Salil Shetty aðalritari Amnesty International. Mynd/Wikipedia
Hörður Helgi Helgason formaður Íslandsdeildar Amnesty.
Hörður Helgi Helgason formaður Íslandsdeildar Amnesty. mbl.is/Rósa Braga
mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert