Fálkaorða til sölu á nytjamarkaði

Þessi fallega orða er nú til sölu.
Þessi fallega orða er nú til sölu. Ljósmynd/Von & Bjargir

Stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu er nú til sölu á fata-, vöru- og nytjamarkaði félagasamtaka sem kalla sig Von & Bjargir. Er markaðurinn til húsa við Suðurlandsbraut í Reykjavík, en orðan er auglýst til sölu á heimasíðu félagasamtakanna og kostar 200.000 krónur.

„Það hefur einhver fengið þetta einhvern tímann, svo lenti þetta á uppboði og var keypt. Nú er orðan til sölu hjá okkur,“ segir Vilhjálmur Svan, formaður samtakanna, í samtali við mbl.is. „Það eru margir búnir að spyrja út í hana, verðið og hvaðan hún kemur. Enda er þetta merkur gripur sem gefinn var af konungi á sínum tíma.“

Fram kemur á heimasíðu forsætisráðuneytisins að þegar Kristján konungur X. kom til Íslands sumarið 1921 var gefið út konungsbréf um stofnun hinnar íslensku fálkaorðu. Var það undirritað í Reykjavík 3. júlí sama ár.

Fyrsti stórmeistari fálkaorðunnar var konungur Íslands, en með stofnun lýðveldisins árið 1944 verður forseti Íslands stórmeistari. Orðustigin eru fimm, þ.e. riddarakrossinn, stórriddarakross, stórriddarakross með stjörnu og stórkross. Æðsta stig orðunnar er keðja ásamt stórkrossstjörnu, en hana bera einungis þjóðhöfðingjar.

Samkvæmt upplýsingum sem birtar eru á heimasíðu forseta Íslands ber erfingjum þess er fálkaorðuna hefur hlotið að skila orðuritara orðunni aftur. Ljóst er að það hefur ekki verið gert í þessu tilfelli.

Að sögn Vilhjálms er orðan forngripur frá þeim tíma er yfir Íslandi ríkti konungur.

„Ríkið hefur náttúrulega ekkert með þetta tímabil að gera.“ Spurður hvort ekki sé rétt að skila orðunni í ljósi þess sem fram kemur á heimasíðu forsetans svarar Vilhjálmur: „Þeir geta fengið hana til baka - ef þeir kaupa hana. Þeir hafa nú keypt annað eins.“

Orðan er að sögn mjög heilleg og falleg auk þess sem upprunalegur kassi fylgir henni.

Sjá má orðuna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert