Trans og intersex njóta ekki verndar

Lítil sem engin lagaleg vernd er hér á landi fyrir …
Lítil sem engin lagaleg vernd er hér á landi fyrir trans- og intersex-fólk. mbl.is/Styrmir Kári

Ísland stendur vel að vígi þegar kemur að málefnum samkynhneigðra. Á sama tíma er lítil sem engin lagaleg vernd fyrir trans- og intersex-fólk. Þetta segir Kitty Anderson, formaður samtakanna Intersex Ísland, en engin löggjöf er til á Íslandi um málefni intersex-fólks.

Í dag leiddi Kitty pallborðsumræður um trans-fólk, intersex-fólk og heilbrigðismál, þar sem fjallað var um stöðuna hér á landi og helstu vandamálin sem trans- og intersex-fólk þarf að glíma við í heilbrigðiskerfinu, borið saman við önnur lönd.

„Í umræðunni kom fram mikil óánægja með núverandi löggjöf sem lýtur að transfólki, en umrædd lög, sem sett voru 2012 og nefnast lög um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda, voru þegar úrelt daginn sem þau voru sett,“ segir Kitty í samtali við mbl.is.

Hún segir Ísland standa vel að vígi þegar kemur að málefnum samkynhneigðra. Lítil sem engin lagaleg vernd sé hins vegar fyrir trans- og intersex-fólk. Bendir hún á svokallað regnbogakort sem samtökin ILGA gefa út á ári hverju, og sýnir lagalega stöðu samkynhneigðra, tvíkynhneigðra, trans- og intersex-fólks í Evrópu.

Engin löggjöf um málefni intersex-fólks

„Prósentutölurnar sýna hversu langt á veg komin lönd eru í að ná fullum réttindum fyrir allt hinsegin fólk. Í gögnum sem fylgja kortinu sést mjög skýrt að það vantar töluvert mikið upp á hvað varðar málefni trans-fólks. Þá er engin löggjöf til á Íslandi um málefni intersex-fólks,“ segir Kitty.

Á kortinu sést hvar Írland er með 40% en Kitty bendir á Írar verði komnir fram úr Íslendingum strax á næsta ári.

„Þegar þetta kort var gefið út þá var ekki komin út löggjöf um jafnan rétt til hjúskapar í Írlandi og þá hafa þeir einnig tekið stórt stökk á síðustu mánuðum í málefnum trans-fólks. Trans er ekki lengur sjúkdómsvætt þar í landi, öfugt við hvernig það er hér á landi,“ segir hún og bætir við að þar sé réttur til sjálfsskilgreiningar á kyni virtur.

Hindra aðgengi að heilbrigðiskerfinu

„Á sama tíma hér á Íslandi þarf fólk að fara í gegnum geðheilbrigðiskerfið og sjálft heilbrigðiskerfið og fá sjúkdómsgreiningu, auk þess að þurfa að hafa lifað í eitt til eitt og hálft ár í því kynhlutverki sem það kýs, áður en það hefur aðgang að hormónameðferð.“

Í heilbrigðiskerfinu mæta trans-einstaklingar miklum hindrunum að sögn Kittyar.

„Það er ákveðið teymi sem ákveður í raun hvort að manneskjan sé að segja satt eða ekki. Ef þau eru ekki sammála sjálfsskilgreiningu manneskjunnar á kyni sínu, þá takmarkar það verulega aðgengi hennar að heilbrigðiskerfinu.“

Hinsegin dögum er fagnað í Reykjavík um þessar mundir.
Hinsegin dögum er fagnað í Reykjavík um þessar mundir.

Fullskeggjaðir karlmenn með kvenmannskort

Þá segir hún fólk ekki fá kynskráningar- eða nafnabreytingu fyrr en það er komið mjög langt í ferlinu. Þessu geti fylgt ýmis óþægindi fyrir viðkomandi einstaklinga og bendir hún á nokkur dæmi þess.

„Það þýðir að við erum með konur gangandi um með skilríki merkt karlkynsnafni. Slíkt veldur vandræðum við einföldustu hluti eins og til dæmis að versla vörur, sem lagaðist þó að einhverju leyti með tilkomu PIN-númera. Þá eru jafnvel fullskeggjaðir karlmenn að borga með kortum þar sem á er letrað kvenkynsnafn.“

Vandamálin eiga síður en svo einungis við um kortaviðskipti.

„Fólk sem kýs að nota strætó, ef það kaupir árskort þá er það með nafninu sem er skráð í þjóðskrá. Trans-manneskjan þarf því að koma út úr skápnum fyrir öllum strætóbílstjórum ef hún kýs að nota strætó sem samgöngumáta, sem er náttúrulega fáránlegt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert