„Mér finnst hryggilegt til þess að hugsa að á sama tíma og við hvetjum karla um allan heim til að leggja sitt af mörkum til #heforshe og koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum og tryggja kynjajafnrétti þá skulu ein stærstu og virtustu mannréttindasamtök heims leggja þessar tillögur fram.“
Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra á Facebook-síðu sinni í dag vegna tillögu sem liggur fyrir alþjóðaþingi mannréttindasamtakanna Amnesty International sem fram fer í Dublin um helgina þar sem lagt er til að vændi verði afglæpavætt. Gunnar bendir á að samkvæmt tillögunni verði kaup, sala, milliganga um vændi og rekstur vændishúsa látinn óátalinn líkt og tíðkist í Hollandi og Þýskalandi þar sem vændisiðnaðurinn blómstri og mannsal sé vandamál.
„Er það slíkt sem heimsbyggðin þarfnast? Á Íslandi hefur sænska leiðin verið valin og það sama á við um þó nokkur ríki í kringum okkur. Sú leið er ekki án galla en forsendurnar eru skýrar, að banna vændiskaup en ekki að refsa þeim sem neyðast til að stunda vændi. Vændi er ekki atvinnugrein og á ekki að fá að þrífast sem slík.“