Mikill meirihluti landsmanna telur sig búa á stað sem er góður staður að búa á fyrir samkynhneigða, eða nær 86% þeirra sem taka afstöðu. Þetta kemur fram í Þjóðarpúlsi Gallup.
Nær 2% þeirra sem taka afstöðu telja staðinn sem þeir búa á ekki góðan stað að búa á fyrir samkynhneigða og tæplega 13% hvorki góðan né slæman. Rúmlega 15% aðspurðra tóku ekki afstöðu.
Munur milli kjördæma
„Munur var á svörum landsmanna eftir aldri og töldu þeir sem eru 60 ára eða eldri síst að staðurinn sem þeir búa á væri góður staður að búa á fyrir samkynhneigða. Íbúar höfuðborgarsvæðisins töldu frekar en íbúar landsbyggðarinnar að þeir byggju á stað sem væri góður til að búa á fyrir samkynhneigða.
Einnig var munur á svörum landsmanna eftir kjördæmum en íbúar Suður- og Norðvesturkjördæmis voru ólíklegri en íbúar annarra kjördæma til að telja sig búa á stað sem væri góður staður að búa á fyrir samkynhneigða. Einnig var munur á svörum fólks eftir menntun en þeir sem hafa lokið háskólaprófi eru líklegri, en þeir sem hafa minni menntun að baki, til að telja sig búa á stað sem er góður fyrir samkynhneigða að búa á.
Loks eru þeir sem styðja ríkisstjórnina ólíklegri, en þeir sem styðja hana ekki, til að telja sig búa á stað sem er góður að búa á fyrir samkynhneigða,“ segir í tilkynningu frá Gallup.
Best í Hollandi og Spáni en verst í Senegals
Gallupsamtökin gerðu alþjóðlega könnun á því meðal íbúa mismunandi landa hvort þeir teldu staðinn sem þeir búa á góðan stað til að búa á fyrir samkynhneigða. Þar kemur í ljós að 87% Hollendinga og Spánverja telja sín heimalönd góð fyrir samkynhneigða að búa á. Lægst er hlutfallið í Senegal eða 1%.