Sérsveitarmenn kallaðir út

Frá vettvangi í kvöld.
Frá vettvangi í kvöld. mbl.is

Mikill viðbúnaður er hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í Vallahverfinu í Hafnarfirði og hefur íbúum verið sagt að halda sig innandyra. Fjöldi lögreglumanna er á staðnum og þar á meðal vopnaðir sérsveitarmenn. Þá hefur götum í hverfinu verið lokað.

Samkvæmt heimildum mbl.is barst tilkynning um íbúa við Kirkjuvelli sem væri með ónæði. Skömmu seinna barst önnur tilkynning um að maðurinn kynni að vera vopnaður og að skothvellir hefðu heyrst frá íbúðinni. Í kjölfarið var sérsveitin kölluð út. Samkvæmt heimildum mbl.is heyrðust þrjú riffilskot.

Búið er að loka Vallahverfinu að miklu leyti af fyrir gangandi umferð og bílaumferð og mikill viðbúnaður. Þar á meðal sjúkrabifreið.

Uppfært 23:47:

Fleiri sérsveitarmenn eru komnir á staðinn.

Benedikt Mewes, íbúi í fjölbýlishúsi við Kirkjuvelli 7, segir að allavega fimm sérsveitarmanna séu í stigagangi hússins. Um sé að ræða íbúa á hæðinni fyriri neðan hann. Hann telur ekki að um skothvelli hafi verið að ræða heldur hafi maðurinn barið járnstöng í handrið.

Sérsveitarmennirnir eru að sögn Benedikts fyrir utan íbúðina og hafa ekki farið inn í hana. Stöku öskur heyrist frá manninum. Hann fari út á svalir íbúðar sinnar annað slagið og segist Benedikt geta séð hann þar úr sinni íbúð.

Uppfært 00:11:

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar, segir á Facebook-síðu sem íbúar Vallahverfisins halda úti að lögreglan hafi tjáð sér að aðgerðir á vettvangi muni ekki taka mjög langan tíma. Um sé að ræða einstakling í einni íbúð og að engin hætta sé á ferðum á meðan fólk haldi sig utan við lokuð svæði.

Uppfært 00:23:

Samkvæmt upplýsingum mbl.is hefur einstaklingurinn sem um ræðir komið ítrekað við sögu hjá lögreglunni á liðnum árum.

Uppfært 00:57:

Fleiri bifreiðar á vegum sérsveitarinnar eru komnar á vettvang samkvæmt upplýsingum frá blaðamanni mbl.is á svæðinu. Einnig er stjórnunarbíll frá slökkviliðinu kominn á staðinn. Óvíst er með hlutverk hans.

Íbúi á svæðinu tjáði blaðamanni að skömmu eftir kvöldmatarleytið hafi þeir heyrt eitthvað sem virtist vera þrír skothvellir. Í kjölfarið hafi sérsveitin komið á svæðið. Þeir hafi séð allavega fimm vopnaða sérsveitarmenn við fjölbýlishúsið að Kirkjuvöllum 7 og fara síðan inn í það. Þá hafi þeir séð mann frá sprengjudeildinni. Eftir að sérsveitin var mætt á staðinn hafi þeir einnig heyrt eitthvað sem minnti á skothvelli. Í kjölfarið hafi annar af tveimur sjúkrabifreiðum sem staddar voru fyrir utan ytri lokun hverfisins fært sig inn fyrir hana.

Uppfært 01:12:

Lögreglan er að draga saman seglin í Vallahverfinu. Umferð hefur verið hleypt inn á svæðið á nýjan leik. Benedikt Mewes, íbúi að fjölbýlishúsinu að Kirkjuvöllum 7 sem aðgerðirnar beindust að, segir á Facebook síðu sinni: „Aðgerðið er lokið á Kirkjuvöllum 7 og er engin hætta lengur á svæðinu. Sérsveitin yfirgefið húsið.“

mbl.is
mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert