Víðtæk leit að flugvélinni

Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út á Norður-, Vestur- og Suðurlandi vegna leitar sem stendur yfir að lítilli flugvél sem lenda átti á Keflavíkurflugvelli klukkan 16.20 í dag samkvæmt flugáætlun en ekkert hefur spurst til. Flugvélin lagði af stað frá Akureyri um klukkan tvö í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg hafa 43 björgunarsveitir verið kallaðar út og samtals 200 björgunarsveitarmenn. Leitað er á bifreiðum, jeppum, fjórhjólum og á fæti. Lagt er upp með að hraðleita líkleg svæði auk þess að kanna hvort bændur á leitarsvæðinu og ferðalangar hafa orðið varir við flugvél í dag.

Þá voru báðar þyrlur Landhelgisgæslunnar kallaðar út vegna leitarinnar í dag. Samkvæmt heimildum mbl.is er einkum horft til svæðisins í kringum áætlaða flugleið norðan heiða þar sem verið hefur lágskýjað í dag og frekar þungt yfir.

Frétt mbl.is: Hefja leit að lítilli flugvél

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert