Birta mynd frá vettvangi slyssins

Flugvélin fannst innst í Barkárdal.
Flugvélin fannst innst í Barkárdal. mynd/Landhelgisgæslan

Landhelgisgæslan hefur birt ljósmynd sem sýnir flugvél sem fórst í Barkárdal í gær. Erlendur karlmaður lést í slysinu en annar maður var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Gæslan segir að stefnt sé að því að flytja flak flugvélarinnar í dag eða á morgun.

Þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðar Rannsóknarnefnd samgönguslysa og lögreglu á vettvangi flugslyssins, að því er segir í tilkynningu.

Sá sem komst lífs af er Arngrímur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri flugfélagsins Atlanta og flugstjóri. Maðurinn sem lést er erlendur en ekki er hægt að gefa upp nafn hans að svo stöddu. Var hann látinn þegar flugvélin fannst.

Lögðu mennirnir tveir af stað frá Akureyri klukkan tvö eftir hádegi í gær og var lending flugvélarinnar áætluð á Keflavíkurflugvelli klukkan 16.20. Samhæfingarstöð ríkislögreglustjóra var svo ræst klukkan 17.06 eftir að ljóst varð að flugvélin hafði ekki skilað sér til Keflavíkur.

Þyrla Landhelgisgæslunnar fann vélina um klukkan 20.30 í gærkvöldi innarlega í Barkárdal við Gíslahnúk. Erfitt var að komast að flakinu og er það aðeins aðgengilegt með hjálp þyrlu. Sigu stýrimaður og læknir úr þyrlu Landhelgisgæslunnar að flakinu til að komast að mönnunum.

Arngrímur var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Akureyrar og þaðan með sjúkraflugvél til Reykjavíkur. 

Uppfært kl. 14.56:

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, staðfesti í samtali við mbl.is að vélin hefði verið mikið brunnin þegar á vettvang var komið. Ljóst sé að kviknað hafi í vélinni, en ekki er vitað hvernig slysið bar að.

Lýstu yfir neyðarástandi

Komst lífs af úr flakinu

Annar maðurinn látinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert