Flutningur á vélinni úr Barkárdal hafinn

Frá slysstað.
Frá slysstað.

Byrjað er að flytja niður hluta af flaki flugvélarinnar sem brotlenti í Barkárdal í gær, en aðstæður eru ágætar á staðnum og vonast er eftir því að hægt verði að klára flutninginn fyrir myrkur í kvöld. Ragnar Guðmundsson, hjá Rannsóknanefnd samgönguslysa segir að á staðnum séu 10 manns, auk þyrluáhafnar, en þar af eru þrír uppi við flakið.

Hlutar vélarinnar verða settir á flutningabíl, en hann mun svo keyra með hlutina til Reykjavíkur þar sem rannsóknarnefndin mun skoða þá betur fyrir rannsókn sína.

Auðunn Kristinsson, verkefnastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar gerir ráð fyrir að verkið geti tekið tvo til þrjá tíma, en í samtali við mbl.is staðfesti hann að þyrla gæslunnar verði notuð til að hífa flakið niður í pörtum.

Auðunn segir að skyggnið í gær hafi verið ágætt þegar vélin fannst, þrátt fyrir að það hafi verið þungbúið. Skýjað hafi verið á fjallstoppum og ekki hægt að fljúga í alla dali. Segir hann veðrið vera svipað í dag, en að þar sem veður sé hæglátt geti þyrlan vel athafnað sig.

Það sem gerir starf á svæðinu erfiðara er fjarlægð frá vegum og byggð og því hafi þurft að nota þyrluna í verkið. Segir Auðunn að þar sem vélin verði flutt í nokkrum pörtum niður verði um nokkrar ferðir að ræða, en partarnir verða hengdir í þyrluna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert