Lýstu yfir neyðarástandi

Flugvélin sem fórst. Hún er af gerðinni De Havilland Canada …
Flugvélin sem fórst. Hún er af gerðinni De Havilland Canada DHC-2 Beaver Mk1.

Einkaflugvél, íbúar á bæjum á líklegum flugleiðum og GSM-leitarbúnaður komu við sögu þegar leit stóð yfir af sjóflugvélinni sem skilaði sér ekki til Keflavíkur á tilsettum tíma. Landhelgisgæslan hefur sent frá sér tilkynningu þar sem atburðarásinni er lýst.

Tilkynningin í heild:

„Umfangsmikil leit fór fram í gær vegna eins hreyfils sjóflugvélar af gerðinni Beaver með kallmerkið N610LC. Flugvélin lagði af stað frá Akureyri um kl. 14:00 áleiðis til Keflavíkur í sjónflugi. Þegar flugvélin skilaði sér ekki til Keflavíkur á tilsettum tíma var farið að svipast um eftir henni. Um kl. 17:00 þegar eftirgrennslan hafði engum árangri skilað var lýst yfir neyðarástandi og lét Landhelgisgæslan, sem fer með yfirstjórn vegna leitar að loftförum, ræsa út samhæfingarstöð í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð og kalla út björgunareiningar. Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru þegar kallaðar út ásamt björgunarsveitum og lögreglu á Norður- og Vesturlandi. Þyrlur Landhelgisgæslunnar flugu líklegustu flugleið vélarinnar. Þá leitaði einkaflugvél líklegustu flugleiðir upp úr Eyjafirði. Þegar var hafist handa við að þrengja leitarsvæðið og var haft samband við fjölda bæja á líklegum flugleiðum til að afla upplýsinga um flugumferð dagsins. Það leiddi til þess að hægt var að þrengja leitarsvæðið niður á sunnanverðan Tröllaskaga. Þá var notaður GSM leitarbúnaður til að finna GSM síma áhafnar flugvélarinnar.

Kl. 20:29 fann TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar sjóflugvélina í fjallshlíð innarlega í Barkárdal, norður af Hörgárdal. Stýrimaður og læknir þyrlunnar sigu niður að flaki vélarinnar. Var annar flugmannanna látinn en hinn nokkuð slasaður þegar að var komið. Búið var um hinn slasaða og hann hífður upp í þyrluna sem flaug með hann til Akureyrar. Þaðan var hann fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur.

Rannsóknarnefnd flugslysa vinnur nú að rannsókn slyssins en þyrlur Landhelgisgæslunnar munu aðstoða rannsóknarnefndina og lögreglu við að komast á staðinn og flytja flak flugvélarinnar til byggða.

Landhelgisgæslan vill koma á framfæri þakklæti til lögreglu, björgunarsveita og annarra er aðstoðuðu við leitina.“

Frétt mbl.is: Komst lífs af úr flakinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert