Lögreglan hefur lokið aðgerðum í Vallahverfi í Hafnarfirði sem staðið hafa yfir frá því í kvöld. Varðstjóri á staðnum staðfesti við blaðamann mbl.is að karlmaður hefði verið fjarlægður úr íbúð við Kirkjuvelli 7. Hann hafi ekki verið einn í íbúðinni og hafi ekki verið vopnaður.
Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni að óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglu um klukkan 22:00 í kvöld vegna hávaða frá íbúð í Vallahverfi. Þegar lögreglan hafi mætt á vettvang hafi komið í ljós að um var að ræða mann á fimmtugsaldri sem ætti sér sögu um ofbeldi.
„Varð maðurinn mjög ósáttur við afskipti lögreglu og veittist að lögreglumönnum. Er handtaka átti manninn náði hann að komast inn í íbúðina og loka á eftir sér. Sagðist maðurinn vera með skotvopn og samkvæmt tilkynningum sem bárust var talið að skothvellir hafi heyrst á svæðinu. Var Sérsveit ríkislögreglustjóra því kölluð á vettvang og ástand á vettvangi tryggt þannig að sem minnst hætta stafaði af,“ segir ennfremur.
Maðurinn hafi verið handtekinn á fyrsta tímanum í nótt og að málið sé til rannsóknar. Sérsveit ríkislögreglustjóra stýrði aðgerðum á vettvangi en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sá um lokanir á svæðinu.
Frétt mbl.is: Sérsveitarmenn kallaðir út