Karlmaðurinn sem handtekinn var í Vallahverfinu í Hafnarfirði í nótt er með langan brotaferil á bakinu. Meðal þess sem hann hefur verið dæmdur fyrir er fíkniefnabrot, vopnalagabrot og eignaspjöll.
Árið 2006 var hann dæmdur fyrir brot á vopnalögum eftir að hafa hleypt af skotum úr riffli inni í kjallaraherbergi áður en hann hleypti svo af skotum úr haglabyssu við sama hús, meðal annars á glugga við hlið útidyrahurðar.
Tveimur árum síðar var hann dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir að hafa flutt til landsins allt að 700 grömm af kókaíni með miklum styrkleika, sem ætlað var til sölu. Síðan drýgði hann efnið með blöndun áður en hann seldi það. Við húsleit í tengslum við fíkniefnamálið var lagt hald á rafmagnsvopn og var hann einnig dæmdur fyrir það.
Árið 2011 var hann í Hæstarétti dæmdur að hafa ekið bifreið sinni án gildra réttinda auk þess sem hann var undir áhrifum fíkniefna. Rauf hann með því skilorð og honum gerð refsing.
Árið 2015 var maðurinn dæmdur fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa í kjölfar þess að hann var handtekinn, hótað lögreglumanni lífláti með orðunum: „ég skal brjóta á þér andlitið.“
Í þeim dómi kemur einnig fram að maðurinn hafi hlotið skilorðsbundinn dóm árið 2010 í Austurríki fyrir brot gegn valdstjórninni. Þá kemur einnig fram að hann glími við áfengisvandamál. Ætti hann það til að bregðast við áreiti með ofsareiði, en að hann hafi á þeim tímapunkti leitað sér aðstoðar hjá AA-samtökunum og væri að standa sig vel í 12-spora kerfinu.