Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu á eftir að yfirheyra karlmann á fimmtugsaldri sem var yfirbugaður og handtekinn í nótt vegna ónæðis, hávaða og hótana í fjölbýlishúsi á Völlunum í Hafnarfirði. Lögreglan var með mikinn viðbúnað í gærkvöldi, en í fyrstu var talið að maðurinn bæri skotvopn en svo var ekki.
Maðurinn er í haldi lögreglunnar og verður rætt við hann síðar í dag. Í framhaldinu verður tekin afstaða til málsins og honum veitt viðeigandi aðstoð.
Lögreglan var kölluð að fjölbýlishúsi að Kirkjuvöllum 7 í Hafnarfirði um klukkan 22 í gærkvöldi eftir að nágranni mannsins hafði samband við Neyðarlínuna. Tilkynnt var um mikinn hávaða og ónæði og þá bárust jafnframt tilkynningar um að skothvellir hefðu heyrst. Lögreglan getur ekki útilokað að skotum hafi verið hleypt á en bendir þó á að skotæfingasvæði er skammt frá hverfinu, n.t.t. í Kapelluhrauni.
Lögreglumenn sem voru á meðal þeirra fyrstu á vettvang ræddu við manninn í stigagangi fjölbýlishússins. Maðurinn var hins vegar mjög æstur og lét ófriðlega og að sögn Margeirs Sveinssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns urðu lögreglumennirnir að beita piparúða til að reyna að yfirbuga manninn, sem hefur áður komið við sögu lögreglu vegna ofbeldismála.
Margeir segir að maðurinn, sem var í annarlegu ástandi, hafi náð að slíta sig frá lögreglumönnunum og læsa sig inn í íbúð sinni, en þar býr móðir hans ennfremur. Margeir segir að reiði mannsins hafi ekki beinst gegn móður hans og að hún hafi sloppið ómeidd.
Eftir að maðurinn fór aftur inn í íbúðina sagðist hann vera með skotvopn og því var sérsveit ríkislögreglustjóra kölluð á vettvang og urðu íbúar vitni að störfum fjölmenns lögregluliðs og sérsveitarmann á vettvangi.
Sérsveitarmenn fóru inn í íbúðina á fyrsta tímanum í nótt og náðu þeir að yfirbuga manninn án mótspyrnu. Margeir segir að engin skotvopn hafi verið í íbúðinni. Maðurinn var hins vegar með golfkylfu og eggvopn er hann var handtekinn.
Viðbúnaður lögreglu var mikill og var götum í Vallarhverfinu lokað á meðan aðgerðir stóðu í um þrjár klukkustundir.