Mannréttindasamtökin Amnesty International samþykktu í dag tillögu um afglæpavæðingu vændis á heimsþingi samtakanna í Dublin. Alþjóðaráð samtakanna munu nú þróa stefnu samtakanna í málinu.
Efnislega hafa samtökin því nú ákveðið að beita sér fyrir því að ríki heimsins aflétti refsingum af iðju vændisfólks, þar sem ekki er um að ræða fórnarlömb mansals, börn eða fórnarlömb annarrar nauðungar.
Íslandsdeild Amnesty sat hjá í atkvæðagreiðslunni og studdi tillöguna ekki. Ef tillaga Íslandsdeildarinnar hefði verið samþykkt, þá hefði Amnesty beitt sér fyrir því að ekki yrði lögð refsing við því að selja vændi. Hins vegar hefði áfram verið refsivert að kaupa vændi og útvega húsnæði fyrir slíka starfsemi.
Í tillögunni segir að einstaklingar í kynlífsiðnaði séu mikill jaðarhópur sem í flestum tilvikum eigi á hættu að verða fyrir mismunun, ofbeldi og misbeitingu. Í frétt á vef Amnesty segir að með ályktuninni sé mælt með því að þróuð verði ný stefna samtakanna sem kveði á um að allir einstaklingar í kynlífsiðnaði njóti fullra og jafnrar verndar gegn ofbeldi, misnotkun og mansali.
Tillagan hefur verið umdeild en sjö kvennasamtök á Íslandi höfðu skorað á Íslandsdeild Amnesty International að beita sér fyrir því að tillagan yrði felld. Félögin, Stígamót, Kvennaathvarfsið, Kvennaráðgjöfin, Samtök kvenna af erlendum uppruna, Kvenfélagasamband Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, og Femínistafélag Íslands, sendu frá sér yfirlýsingu og gagnrýndu tillöguna.
„Ef Amnesty International mælir með að því að vændi verði gefið frjálst, er dólgum og vændiskaupendum þar með gefin friðhelgi og mannréttindi kvenna í vændi fótum troðin. Slík stefna myndi skaða þann mikilvæga trúverðugleika og það traust sem Amnesty nýtur í dag. Það má ekki gerast.“
Hörður Helgi Helgason, formaður Íslandsdeildar Amnesty, sagði í samtali við mbl.is á dögunum að athugasemdum félaganna yrði komið á framfæri á þinginu en málið sé ekki þess eðlis að ákveðið hafi verið að kalla eftir umsögnum frá öðrum samtökum.
„Það vill hins vegar svo til að kvennasamtök á Íslandi hafa í gegnum tíðina verið afskaplega mikilvægir og sterkir samherjar okkar í átaki sem við stöndum árlega fyrir í baráttu gegn ofbeldi gegn konum. Það átak og þá vitundarvakningu sem hefur átt sér stað á síðastliðnum áratug þökkum við ekki síst þessu sterka samstarfi við þessi samtök. Þegar þau leituðu til okkar og vildu koma fram sinni afstöðu til tillögunnar þá brugðumst við að sjálfsögðu við því og hlustuðum á þau rök og tökum mikið mark á því sem þau segja og munum koma þeirri afstöðu á framfæri,“ segir Hörður.
Ómögulegt er að segja til um hvenær endanleg afstaða stjórnar Amnesty á heimsvísu muni liggja fyrir eftir þingið en stjórnin kemur saman annan hvern mánuð eða ársfjórðungslega.