Vændi nær þrælahaldi en starfsgrein

Fríða segir ákvörðun Amnesty International vinna gegn mannréttindum.
Fríða segir ákvörðun Amnesty International vinna gegn mannréttindum.

„Það er ótrúlega skrýtin tilfinning að samtök sem maður hefur trúað og treyst í mannréttindabaráttu fari að vinna gegn mannréttindum,“ segir Fríða Rós Valdimarsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands, um ákvörðun mannréttindasamtakanna Amnesty International að samþykkja tillögu um afglæpavæðingu vændis. 

Tillagan var samþykkt á heimsþingi samtakanna í Dublin í dag. Efn­is­lega hafa sam­tök­in því nú ákveðið að beita sér fyr­ir því að ríki heims­ins aflétti refs­ing­um af iðju vænd­is­fólks, þar sem ekki er um að ræða fórn­ar­lömb man­sals, börn eða fórn­ar­lömb annarr­ar nauðung­ar.

„Maður er með sorg í hjarta í dag og manni líður jafnvel eins og maður hafi verið svikinn. Þetta er félag sem ég hef fylgt meira en helminginn af minni ævi en þetta er algjört bakslag,“ segir Fríða. Tillagan hefur verið mjög umdeild, en sjö kvennasamtök á Íslandi, þar á meðal Kvenréttindafélag Íslands, hafa gagnrýnt hana harðlega. Hin samtökin sem um ræðir eru Stíga­mót, Kvenna­at­hvarfsið, Kvennaráðgjöf­in, Sam­tök kvenna af er­lend­um upp­runa, Kven­fé­laga­sam­band Íslands og Femín­ista­fé­lag Íslands.

Munu aldrei sætta sig við normalíseringu á vændi

Íslands­deild Am­nesty sat hjá í at­kvæðagreiðslunni og studdi til­lög­una ekki. Ef til­laga Íslands­deild­ar­inn­ar hefði verið samþykkt, þá hefði Am­nesty beitt sér fyr­ir því að ekki yrði lögð refs­ing við því að selja vændi. Hins veg­ar hefði áfram verið refsi­vert að kaupa vændi og út­vega hús­næði fyr­ir slíka starf­semi.

Fríða segir kvennasamtökin standa saman og hafa trú á þessari svokölluðu sænsku leið. „Þessi leið hefur verið að virka og við munum halda áfram að tala fyrir henni. Með þessari ákvörðun Amnesty er verið að normalísera vændi, en það er eitthvað sem kvennahreyfingin á Íslandi mun aldrei sætta sig við og þetta eflir okkur bara í okkar baráttu.“

Mun styðja undir mansal og klámiðnaðinn

Í til­lög­unni seg­ir að ein­stak­ling­ar í kyn­lífsiðnaði séu mik­ill jaðar­hóp­ur sem í flest­um til­vik­um eigi á hættu að verða fyr­ir mis­mun­un, of­beldi og mis­beit­ingu. Í frétt á vef Am­nesty seg­ir að með álykt­un­inni sé mælt með því að þróuð verði ný stefna sam­tak­anna sem kveði á um að all­ir ein­stak­ling­ar í kyn­lífsiðnaði njóti fullra og jafnr­ar vernd­ar gegn of­beldi, mis­notk­un og man­sali.

Fríða segist efast um að Amnesty hafi haft velferð fólks í vændi efst í huga við ákvörðunina. „Lögleiðing vændis þýðir ekki breytt mynd á því sem við þekkjum í dag þar sem pimpar eða dólgar eiga fólk í vændi. Það er nær þrælahaldi en nokkurn tímann starfsgrein,“ segir hún.

Þá segir hún að þrátt fyrir að ákvörðunin muni ekki hafa bein áhrif á stjórnvöld muni hún styðja við vændismarkaðinn, mansalsmarkaðinn og klámiðnaðinn „sem eru ekki hópar sem við viljum að séu eignarhópar í heiminum“.

Dýru verði keypt að halda uppi kynlífsþjónustu fyrir „forréttindakarla“

Fríða segist ekki átta sig á því hvernig Amnesty hyggist útfæra vændismarkaðinn, eða hvernig samtökin sjái fyrir sér að hann verði. „Vilja þau að þetta sé iðngrein sem fólk lærir eða á þetta að vera ríkisrekið batterí?“ spyr hún og heldur áfram:

„Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar á kaupendum vændis sýna að flestir kaupendur gera þetta í fikti, en stórkaupendur sem halda uppi markaðnum eru almennir ríkir forréttindakarlar. Mér finnst það dýru verði keypt að við ætlum að halda uppi þjónustu fyrir þá með kynlífi á kostnað alls þess sem konur í vændi þurfa að díla við,“ segir Fríða.

Loks segist hún strax vera farin að sjá fjöldaúrsagnir úr Amnesty í kringum sig og á heimsvísu. „Við beinum þeim sem kæra sig ekki lengur um að styðja við Amnesty að styðja frekar við þau félög sem eru í alvöru að vinna að réttindum fólks í vændi eins og Kvennaathvarfið og Stígamót, og þau félög sem berjast fyrir kvenréttindum eins og Kvenréttindafélagið og fleiri.“

Frétt mbl.is: Leggja til afglæpavæðingu vændis

Fríða Rós Valdimarsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands.
Fríða Rós Valdimarsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands.
Amnesty International.
Amnesty International. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert