Flugvélin sem fórst í Barkárdal, var nýfyllt af eldsneyti þar sem til stóð að fljúga henni til Kanada með stoppi í Grænlandi. Annar mannanna tveggja sem voru í flugvélinni lést en Arngrímur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri flugfélagsins Atlanta, komst lífs af. Hann fékk hins vegar brunasár á höndum og fótum en var að öðru leyti fremur vel haldinn þegar björgunarsveitarmenn komu að honum að sögn Auðuns Kristinssonar, starfandi framkvæmdastjóra aðgerðasviðs hjá Landhelgisgæslunni. Auðunn stýrði leitar- og björgunaraðgerðinni. Að sögn hans var leitarsvæðið loftlínan á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Þrátt fyrir stórt leitarsvæði gekk vel að þrengja leitina og einungis þremur og hálfri klukkustund eftir að tilkynning barst Gæslunni fannst flak flugvélarinnar, eða klukkan hálfníu í fyrrakvöld. „Það sem við höfðum í höndunum áður en leit hófst var það að vélin hefði lagt af stað frá Akureyri klukkan 14 og átti að koma 16.20 til Keflavíkur. Við höfðum því í raun mjög lítið í höndunum en náðum að þrengja leitarsvæðið með því að hringja á sveitabæi sem eru á þessari leið, auk þess að leita á því svæði þar sem líklegasta flugleiðin var. Því náðum við fljótlega að þrengja leitina að sunnanverðum Tröllaskaga,“ segir Auðunn.
Hann segir að flugvélin hafi verið á eðlilegri leið í átt til Keflavíkur miðað við brotlendingarstaðinn. „Við settum af stað vinnuhóp sem hringdi á sveitabæi og það voru nokkrir einstaklingar sem höfðu séð vélina,“ segir Auðunn. Hann segir að miðað við upplýsingarnar sem voru fyrir hendi hafi sá tími sem leið þar til vélin fannst verið ásættanlegur. ,,Við vorum mjög ánægð að finna vélina fyrir myrkur. Lágskýjað var og skýjafar fór lækkandi og við vissum að við vorum undir tímapressu hvað myrkrið varðaði,“ segir Auðunn.
Hann segir að veður hafi verið þungbúið og súld í hlíðunum, hiti nokkrar gráður en ekki mikill vindur. Einkaflugvél hafði flogið yfir brotlendingarstaðinn skömmu áður en ekki fundið flakið. „Flök flugvéla sem farist hafa sjást mjög illa og hverfa í landslagið, sérstaklega þarna, þar sem mikið er um snjó og skafla,“ segir Auðunn. Skömmu síðar sást flakið úr þyrlu Gæslunnar. Hann segir að vélin hafi sést mjög illa. Alla jafna fljúga þyrlur Gæslunnar í 200-300 feta hæð, eða því sem nemur um 60-90 metra hæð, þegar leit stendur yfir. „Þyrlan frá Gæslunni fann hana og einn gæslumaður og læknir sigu niður að flakinu.“
Hinn látni var kanadískur og var strax úrskurðaður látinn eftir að læknir kom á slysstað. Flogið var með Arngrím til Akureyrar þaðan sem hann fór með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Að sögn Auðuns virtist Arngrímur nokkuð vel haldinn þrátt fyrir brunasár. „Hann var í þokkalegu ásigkomulagi. Við komum að honum á fótum fyrir framan vélina. Hann gat gert ágætlega grein fyrir sér,“ segir Auðunn. Að sögn hans tóku tvær þyrlur þátt í leitinni auk 150-200 björgunarsveitamanna sem búið var að ræsa út á Norður- og Vesturlandi. „Við settum ansi víðfeðma leit í gang. Bæði á sjó í flugleiðinni þar og á Vesturlandi,“ segir Auðunn.
Báðir mennirnir voru flugmenn en ekki liggur fyrir hvor þeirra stýrði vélinni.