Hjálpa fötluðum upp Esjuna

ljósmynd/Öryggismiðstöðin

Öryggismiðstöðin hyggst um helgina aðstoða 24 einstaklinga sem glíma við fötlun eða veikindi að komast upp Esju, en fyrirtækið fagnar um þessar mundir 20 ára afmæli. Notast verður við tvo Joelette torfæruhjólastóla sem fluttir hafa verið til landsins sérstaklega fyrir þetta verkefni. 

Að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Öryggismiðstöðinni mun starfsfólk fyrirtækisins auk fjölda annarra sjálfboðaliða aðstoða fólkið upp. Meðal annars ætlar meistaraflokkur Fram í handbolta að leggja sitt að mörkum og hefur fært laugardagsæfingu sína upp að Esjurótum og mun fylgja þátttakendum upp.

ljósmynd/Öryggismiðstöðin

Öryggismiðstöðin auglýsti á dögunum eftir áhugasömum þátttakendum sem sökum fötlunar eða veikinda hafa ekki átt þess kost að sigra Esjuna. Að því er fram kemur í tilkynningunni fóru viðbrögðin langt fram úr væntingum og því greinilegt að langþráður draumur margra mun rætast á toppi Esjunnar um helgina. Fyrsta ferð verður farin kl. 9 á föstudagsmorgunn og síðan á 3 klukkustunda fresti. Farið verður föstudag, laugardag og sunnudag og hægt verður að fylgjast með árangri Esjufara á samskiptamiðlum í gegnum #esjanrullar

Myndirnar sýna þegar Dagur Steinn Ómarsson fór prufuferð á Esjuna í gær á Joelette torfæruhjólastól í fylgd fjögurra aðstoðarmanna og tókst hún vonum framar. Dagur Steinn var að vonum kampakátur með hafa komist upp Esjuna í fyrsta skipti.

ljósmynd/Öryggismiðstöðin
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert