Hannes Hólmsteinn Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, segist ekki skilja hvers vegna kvenfrelsissinnar séu á móti því að konur stundi vændi. Lýsir hann vændi sem „atvinnutækifæri“ fyrir konur og segir ekkert á móti því að þóknun komi fyrir blíðu.
„Aðalatriðið um vændi er, hvort upplýst samþykki beggja liggi fyrir. Ef svo er, þá er auðvitað ekkert á móti því, að þóknun komi fyrir blíðu. Mér er ekki alveg ljóst, hvers vegna kvenfrelsissinnar eru á móti því, að konur noti þetta atvinnutækifæri, sé hvergi nein nauðung á ferð. Er þetta ekki dæmi um, að sumar konur séu á móti öðrum konum, frekar en að konur séu almennt á móti körlum?“ skrifar Hannes á Facebook-síðu sína.
Segir hann að ekki eigi að afgreiða vændi frekar en önnur siðferðileg álitamál „með því einu að segja sögur, misjafnlega áreiðanlegar“, heldur í ljósi tveggja lögmála eða röksemda sem hann lýsir svo:
„1) Ef menn brjóta ekki rétt á öðrum með því að kaupa eða selja vændi, þá eiga aðrir ekki að skipta sér af því. 2) Ef afleiðingarnar af að banna vændi eru verri en afleiðingarnar af því að leyfa það, þá getur verið skynsamlegt að leyfa það. Önnur rökin eru réttindarök, hin nytjarök.“