Vilja endurskoða skipulag lóðarinnar

Byggingarlóð Landsbankans í miðborginni er rétt við Hörpu. Byggingin mun …
Byggingarlóð Landsbankans í miðborginni er rétt við Hörpu. Byggingin mun setja mikinn svip á umhverfið. mbl.is/Eggert

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar fagna því að stjórnendur Landsbankans hafi ákveðið að staldra við og endurskoða áform sín um uppbyggingu sextán þúsund fermetra höfuðstöðva á Hörpureitnum.

Á fundi ráðsins í gær lögðu þeir til að unnið verði með Landsbankanum að því að finna viðunandi framtíðarstaðsetningu í borginni fyrir höfuðstöðvar bankans og að skipulag lóðarinnar á Austurbakka verði endurskoðuð. Efnt verði til samkeppni um nýtingu hennar og leitað eftir hugmyndum frá fagfólki og almenningi um það hvernig lóðin muni best nýtast í heildarsamhengi miðborgarinnar.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við mbl.is að þetta sé tillaga til lausnar á þessu máli. „Það hafa komið fram sterkar skoðanir á hugmyndum Landsbankans að reisa höfuðstöðvar sínar þarna og við tökum undir þær með þessum hætti. Eins og fram kemur í tillögunni hafa ýmsar aðrar hugmyndir verið uppi um nýtingu þessarar lóðar, eins og meðal annars að nýta hana fyrir nýbyggingar Listaháskólans og náttúruvísindasafns.

Það eru ekki tillögur sem við erum að leggja fram, heldur erum við bara að benda á að þetta eru hugmyndir sem voru til skoðunar á sínum tíma,“ segir hann.

Finni viðunandi lausn fyrir Landsbankann

Eins og kunnugt er hefur verið ákveðið að fresta hönnunarsamkeppni um fyrirhugaða nýbyggingu bankans sem hefjast átti síðar í þessum mánuði. Það var meðal annars gert til að fara yfir þau sjónarmið sem fram hafa komið á síðustu vikum, en áformin hafa verið harðlega gagnrýnd.

Júlíus Vífill bendir á að það skipti mjög miklu máli að fundin verði viðunandi lausn sem Landsbankinn er sáttur við. „Vilji hann byggja höfuðstöðvar, þá er ýmislegt sem manni dettur í hug sem gæti verið áhugavert í því samband. Það er allavega ljóst að það er ekki einhver ein lóð sem getur nýst bankanum best í borginni. Og það þarf ekki að leita langt út fyrir það svæði sem hann er á núna,“ nefnir hann.

Kristján Kristjáns­son, upp­lýs­inga­full­trúi Lands­bank­ans, sagði í samtali við mbl.is í seinasta mánuði að bank­inn skil­greini sig sem miðbæj­ar­fyr­ir­tæki. Hann vilji hér eft­ir - sem hingað til - vera í miðbæn­um eða sem næst hon­um.

„Þó svo að það sé ekki gott að lóðir standi lengi auðar, þá felast kostir í því fyrir borg að byggjast upp í áföngum, þannig að hægt sé að gera sér grein fyrir því hvernig hún þróast.“ Júlíus Vífill segir að á Hörpureitnum muni rísa heilt hverfi, nýtt miðborgarhverfi, og áhrif þess á alla miðborgarstarfsemi skipti því ljóslega miklu máli.  

Aðstæður séu jafnframt aðrar nú en árið 2005, þegar deiliskipulag svæðisins var unnið. „Það er ágætt að láta hlutina þroskast og gerjast og skoða þá betur.“

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Afstöðumynd af nýju höfuðstöðvum Landsbankans.
Afstöðumynd af nýju höfuðstöðvum Landsbankans. Mynd/Landsbankinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka