Það er fögur fjallasýn frá bænum Syðri-Fljótum. Ekki svo að skilja að við njótum hennar á þessum degi enda fyrsta haustlægðin skriðin á land og búin að draga tjald fyrir fjöllin. Ábúendur, hjónin Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, láta sér það svo sem í léttu rúmi liggja enda vætunni fegin eftir langvarandi þurrkatíð. Þau eru enn ekki farin að heyja og ljóst að aðeins verður slegið einu sinni á Syðri-Fljótum á þessu sumri en frá því Kristín og Guðbrandur hófu þar búskap fyrir sautján árum hefur það iðulega verið gert tvisvar. Fyrir utan þurrkinn voraði seint fyrir austan – eins og víðar á landinu bláa.
Það var bjartara yfir bænum daginn áður þegar Kristín og Guðbrandur sneru heim ásamt börnum sínum, Svanhildi og Lárusi, eftir frækilega ferð á Heimsleika íslenska hestsins í Herning í Danmörku, þar sem Kristín gerði sér lítið fyrir og vann gull á honum Þokka sínum í tölti – fyrst íslenskra kvenna. Fjölskyldan var ekki fyrr komin í hlaðið en ættingjar, vinir og félagar í hestamannafélaginu Kópi spruttu fram úr fylgsni sínu og héldu nýbökuðum heimsmeistara óvænt sigurhóf, fyrst heima á Syðri-Fljótum og síðan í félagsheimili sveitarinnar. Okkar kona vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið.
„Ég botnaði ekkert í því hvað Brandi lá mikið á að komast heim. Mig langaði að koma við hjá pabba á hjúkrunarheimilinu á Klaustri en Brandur mátti ekkert vera að því. Það væri svo mikið að gera heima. Ég lét það gott heita og krossbrá þegar ég sá móttökunefndina. Þetta var miklu erfiðara en að ríða inn á völlinn í Herning. Hjartslátturinn var miklu hraðari,“ segir Kristín hlæjandi, þegar sendinefnd Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins hefur komið sér fyrir í eldhúsinu.
Enn má sjá ummerki eftir veisluna, blómvendir eru upp um alla veggi og Kristín ber fram restarnar af rjómatertunum. Því miður er aðaltertan búin en á henni var mynd af heimsmeistaranum í miðri keppni. Þokki ber nafn með rentu.
Þetta voru fyrstu heimsleikar Kristínar og segir hún upplifunina hafa verið einstaka. Umgjörðin hafi verið glæsileg og stemningin mikil. „Ég hef þrisvar tekið þátt í Íslandsmóti og það var þannig lagað ekkert öðruvísi að ríða inn á völlinn í Herning. Áhorfendur eru á hinn bóginn mun fleiri, á bilinu átta til tíu þúsund, og mikið klappað og öskrað. Maður getur valið fyrirfram að biðja fólk um að klappa ekki og ég gerði það, Þokka vegna. Hann er svolítið viðkvæmur og ég hafði áhyggjur af því að hann gæti stífnað upp. Sem betur fer gerðist það ekki, hann hafði bara gaman af þessu og stóð sig frábærlega,“ segir Kristín.
Fyrirfram höfðu einhverjir áhyggjur af því að Þokki væri ekki nógu hraður á töltinu en það reyndist ástæðulaust. „Ég hef ekki viljað sprengja hann upp og eftir á að hyggja var það greinilega rétt ákvörðun. Þokki var ekki alltaf auðveldur en alltaf hágengur og sprakk út á réttum tíma. Við þekkjum hvort annað út og inn sem skiptir alltaf miklu máli,“ segir hún.
Kristín vill nota tækifærið og þakka öllum sem hjálpuðu henni við þjálfun Þokka gegnum árin. Enginn nái svona árangri einn og óstuddur. Þá vill hún koma á framfæri þakklæti til allra sem styrktu hana fjárhagslega til fararinnar. „Ég er þannig gerð að ég á ofboðslega erfitt með að safna styrkjum en varð að gera það að þessu sinni. Annars hefði þetta ekki verið hægt. Fólk tók mér alveg ótrúlega vel,“ segir hún.
Nánar er rætt við Kristínu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.