Undrast áhugaleysi lögreglunnar

Theodora segir að það hafi verið hræðilegt að fylgjast með …
Theodora segir að það hafi verið hræðilegt að fylgjast með Morgann kveljast. Ljósmynd/Theodora Ponzi

Svo virðist sem enn sé eitrað fyrir köttum í Hveragerði. Theodora Ponzi missti köttinn sinn, Morgann, eftir að hann át fisk sem hafði legið í froslegi. „Nágranni okkar á eingöngu inniketti og kemur til mín á fimmtudagskvöldið en þá er kötturinn hans orðinn eitthvað slappur. Hann hafði farið með kettina sína út í garð og tók eftir því að einn þeirra borðaði úr garðinum,“ segir Thedora við mbl.is.

„Nágranni minn veit af öllu því sem er í gangi og grandskoðar köttinn sem hafði borðað í garðinum en sá ekkert að honum. Hins vegar verður kötturinn fárveikur um nóttina. Vatn lekur úr eyrunum og munninum á honum og lifrin fyllast af fitu. Hann kemur kettinum undir læknishendur og það tekst að bjarga honum.“

Lögreglan sýnir málinu lítinn áhuga

Theodora segir að dýralæknirinn hafi sagt þeim að í þessu tilviki hefði kötturinn innbyrt rottueitur. „Lögreglustjórinn á Selfossi hefur engan áhuga á þessu máli. Þegar maður kemur með ábendingar um fólk sem hefur lýst yfir hatri á köttum segir hann að það sé ekki okkar að finna eitthvað; hann hefur engan áhuga á þessu. Hann lýsir því ennþá yfir að það sé enginn grunur um eitrun á köttunum hérna í Hveragerði.“

Theodora gefur lítið fyrir skýringar lögreglustjórans. „Hann sagði að þetta væri lausagöngu katta að kenna. Nú hafa kettir sem eru innikettir dáið og eitur hefur verið sett í garðana þar sem börnin okkar leika sér. Engum virðist finnast það óhugnanlegt. Það þarf greinilega eitthvað verulega mikið að gerast svo þetta verði rannsakað. Ég þori varla að setja börnin mín út í garð.“ 

Erfitt að horfa á dýrin kveljast

Theodora segist auðvitað vera leið og reið yfir þessum atburðum. „Ég get eiginlega ekki lýst þessu í orðum. Við erum hrædd við að senda börnin okkar út. Það er einhver að setja rottueitur og frostlög í stórum skömmtum í garðana okkar, þetta er ekkert grín.“

Hún segir að það hafi verið hræðilegt að fylgjast með dýrunum kveljast. „Það er búið að drepa hluta af fjölskyldunni. Það var ekkert smá erfitt að horfa á dýrin engjast, gubba, þau skulfu, þau gátu ekki labbað og voru svo hrædd að þetta var ógeðslegt. Það er ekki hægt að lýsa því hversu skelfilegt það var að fylgjast með þessu. Maður verður svo reiður að lögreglan skuli ekki gera meira í málinu.“

Barn verður veikt af hálfri teskeið

Sjálf hefur Theodora ráðfært sig við dýralækni hjá Matvælastofnun en hún segir að hann hafi ekki skilið af hverju málið væri ekki rannsakað betur. „Hann sagði að það þyrfti einungis hálfa teskeið af annað hvort rottueitri eða frostlegi, sem var notað til að eitra fyrir hinum köttunum, til að gera barn verulega veikt. Það magn drepur hins vegar kött.“

Thedora segist hafa fengið ábendingar um aðila sem grunaður er um verknaðinn. „Maðurinn sem kom þeim upplýsingum til mín sagði mér að hann hefði fyrst fært lögreglu upplýsingarnar. Lögreglan sagði honum að hún gæti kært hann fyrir að ásaka mann um að eitra.“ Umræddur grunaður maður hefur samkvæmt Theodoru eitrað fyrir köttum áður og montað sig af gjörðum sínum.

„Lögreglan segir hins vegar að við getum ekki skipt okkur af eða komið með ábendingar vegna þess að það væri andstætt lögum. Við gætum fengið kæru á okkur fyrir að ásaka mann um eitthvað, þrátt fyrir að þetta sé eingöngu ábending. Gerandinn þarf greinilega að mæta sjálfur á lögreglustöðina á Selfossi og játa brot sitt. Við megum greinilega ekki skipta okkur af þessu og mér finnst það mjög skrítið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert