Arngrímur Jóhannsson, flugmaður og fyrrverandi forstjóri flugfélagsins Atlanta, hefur verið útskrifaður af gjörgæsludeild Landspítalans eftir að hann var fluttur þangað eftir flugslys í Barkárdal í Hörgársveit á sunnudaginn fyrir rúmlega viku síðan.
Hlaut hann meðal annars alvarleg brunasár víða um líkamann og hefur hann farið í aðgerð vegna sáranna.
Vélin brotlenti á fjallinu Gíslahnúk í Barkárdal og lést einn maður í slysinu. Flugvélin var flutt í burtu á mánudaginn til Reykjavíkur og er nú til rannsóknar hjá Rannsóknarnefnd flugslysa.