Andlát: Jón Páll Bjarnason

Jón Páll Bjarnason.
Jón Páll Bjarnason.

Jón Páll Bjarnason gítarleikari varð bráðkvaddur að heimili sínu sunnudaginn 16. ágúst.

Jón Páll fæddist á Seyðisfirði 6. febrúar 1938. Foreldrar hans voru hjónin Anna G. Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur og Gunnar Bjarnason verkfræðingur og skólastjóri Vélskóla Íslands.

Jón Páll lauk prófi frá Loftskeytaskólanum, en hafði áður sýnt mikla hæfileika á sviði tónlistar. Hann stundaði nám í sellóleik og síðar í píanóleik, en mjög snemma varð gítarinn fyrir valinu og fylgdi honum til hinsta dags. Jón Páll tók kornungur að leika með ýmsum bestu hljómsveittum landsins fyrir dansi, fyrst hér á landi en sótti síðar á svipuð mið í Danmörku og Svíþjóð og um skeið lék hann með erlendum tónlistarmönnum á skemmtiferðaskipum á Karíbahafi. Síðar á ævinni fór hann í framhaldsnám í list sinni í Bandaríkjunum.

Jón Páll var í hópi bestu gítarista landsins, var meðal frumkvöðla á sviði djassins. Hann gegndi oft stóru hlutverki á djasshátíðum. Hann stundaði gítarkennslu í einkatímum og kenndi bæði við tónlistarskóla FÍH og grunnskólann á Akranesi.

Jón Páll var þríkvæntur. Fyrsta kona hans var Elly Vilhjálms söngkona. Þau skildu en áttu dótturina Hólmfríði Ástu. Önnur kona Jóns Páls var Erna Haraldsdóttir flugfreyja, sem fórst í flugslysinu mikla á Sri Lanka í nóvember 1978. Þriðja eiginkona hans var Roberta Ostroff rithöfundur í Bandaríkjunum, en hún lést 2004.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert