Það var ekki spurning um hvort heldur hvenær efri brúin yfir Vatnsdalsá hryndi. Bílstjóri flutningabílsins sem var á leið yfir brúna þegar hún hrundi slapp nokkuð vel frá slysinu en verr hefði getað farið ef um rútu með fjölda farþega hefði verið að ræða. Þetta segir Egill Herbertsson, bóndi í Haukagili í Vatnsdal.
Frétt mbl.is: Efri brúin yfir Vatnsdalsá hrundi
Egill segir brúna hafa verið komið til ára sinna og löngu hafi verið kominn tími á endurnýjun. Hann segir Vegagerðina að jafnaði koma einu sinni á ári og dytta að henni en ljóst hafi verið að brúin þyldi ekki mikið álag til lengri tíma.
Byrjað var að keyra yfir brúna í gær með leir vegna vegaframkvæmda í dalnum. Eiginkona Egils og önnur kona urðu varar við óhappið og fóru og huguðu að bílstjóranum sem var að sögn þeirra nokkuð brattur en lemstraður. Farið var með hann á heilsugæsluna á Blönduósi.