Engar nýjar upplýsingar eru fáanlegar um mál mannsins sem grunaður er um að hafa smitað konur af HIV. Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir rannsókn lögreglu enn í gangi en engar upplýsingar verða gefnar um hana að svo stöddu.
Þá sagði Þórólfur Guðnason, settur sóttvarnalæknir, í samtali við mbl.is í dag að embættið myndi ekki gefa frekari upplýsingar um málið fyrr en að lokinni lögreglurannsókn, hvorki um fjölda þeirra kvenna sem hefðu gengist undir rannsókn í tengslum við málið né um fjölda þeirra sem hefðu greinst með HIV. Hann vildi ekki tjá sig um það hvort læknisrannsóknir stæðu enn yfir.
mbl.is hefur áður sagt frá því að tvær konur sem áttu samneyti við manninn hefðu greinst með HIV.
Maðurinn situr í gæsluvarðhaldi en gæsluvarðhaldsúrskurður héraðsdóms Reykjavíkur rennur út 22. ágúst, samkvæmt Friðriki Smára. Úrskurðinum var skotið til Hæstaréttar, þar sem hann var staðfestur, en birtingu dómsins var frestað um a.m.k. þrjá mánuði vegna rannsóknarhagsmuna.