„Margir blóðugir og illa farnir“

Skrifstofustarfsmenn kveikja á kertum til minningar um þá sem létust …
Skrifstofustarfsmenn kveikja á kertum til minningar um þá sem létust í sprengjuárásinni í Bangkok í gær. AFP

„Við vorum nú búin að túrista yfir okkur allan daginn og höfðum farið framhjá þessum stað tvisvar ef ekki þrisvar, þannig að eftir á að hyggja þá hefur maður verið frekar heppinn með að hafa ekki verið nær þegar þetta gerist,“ segir Hjalti H. Jónsson, sem staddur var í Bangkok þegar sprengja sprakk við helgidóm í borginni í gær.

Yfirvöld í Bangkok leita nú manns sem skildi eftir bakpoka á nákvæmlega þeim bletti þar sem sprengjan sprakk, en enn sem komið er hefur engin lýst ábyrgðinni á hendur sér. Þrátt fyrir átök í landinu sl. áratug er fáheyrt að árásum af þessu tagi sé beint gegn ferðamannastöðum á borð við áðurnefndan helgidóm.

„Þetta var smá sjokk auðvitað,“ sagði Hjalti í Facebook-spjalli við mbl.is en hann og kærasta hans, Mia Linnea, eru nýkomin heim til Kaupmannahafnar eftir mánaðarlangt ferðalag um Asíu. Bangkok var síðasta stoppið, að sögn Hjalta.

„Við sátum nokkrum götum frá, sirka 2 km í burtu, þannig að við heyrðum ekkert,“ segir hann um sprenginguna. „Við vorum svo á leiðinni að borða á veitingastað þegar við gegnum framhjá bráðamóttökunni, sem var eflaust næsti spítali hjá, en þar voru þvílíkt margir blóðugir og illa farnir.“

Hjalti og Mia hugsuðu sem svo að Bangkok væri jú stórborg og að slys væru tíð. „En svo þegar við komum á veitingastaðinn þá voru mömmur okkar beggja búnar að skrifa til okkar, þannig að þá fréttum við hvað gerðist.“

Að minnsta kosti 20 létust í sprengingunni og fleiri en 120 voru særðir. Að því er fram hefur komið í fjölmiðlum lágu líkamspartar á víð og dreif á vettvangi.

Hjalti segir að á veitingastaðnum hafi allir verið í stressi, að reyna að ná sambandi við vini og ættingja, og að það sama hafi blasað við á flugvellinum; mikil ringulreið og margir grátandi. Þá hafi þau séð fjölda lögreglu- og sjúkrabifreiða með blikkandi ljós á leiðinni út á flugvöll og mörgum götum hafi verið lokað.

„Já, þetta var agalega leiðinlegur endir á annars frábærum og heitum degi í Bangkok,“ segir hann.

#StrongerTogether hefur verið að trenda á samfélagsmiðlum í kjölfar voðaverksins.
#StrongerTogether hefur verið að trenda á samfélagsmiðlum í kjölfar voðaverksins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert