Vegagerðin skoðar útleigu á vitum

Seltjarnarnesbær hefur nýtt Gróttuvita.
Seltjarnarnesbær hefur nýtt Gróttuvita. Sverrir Vilhelmsson

Útleiga á íbúðarhúsnæði vitans Dyrhólaey gæti verið fordæmi fyrir frekari útleigu á vitum hér á landi þannig að það myndi skapa tekjur fyrir ríkissjóð og skapa atvinnutækifæri víða um land. Þetta segir Sigurður Áss Grétarsson, framkvæmdastjóri siglingasviðs Vegagerðarinnar, í samtali við mbl.is, en hann bendir á að vitarnir séu margir hverjir mjög fallegar byggingar á einstökum stöðum fjarri annarri byggð.

Morgunblaðið sagði frá því í apríl á þessu ári að Icelandair hótelið í Vík hefði leigt vitann og hygðist nýta hann til að bjóða erlendum blaðamönnum að gista þar, sem hluta af markaðsherferð og kynningu á „stop-over“ kynningarátaki. DV sagði svo frá því í helgarblaði sínu að ferðamönnum væri boðið upp á að kaupa gistingu í vitanum í tvo mánuði, frá 1. september til loka október. Er nóttin sögð kosta 220 þúsund krónur og vera dýrasta gisting landsins.

Forsendur breyst með auknum ferðamannastraumi

Sigurður segir við mbl.is að Vegagerðin hafi undanfarið fengið fyrirspurnir um ýmsa vita og það hafi verið í skoðun að leigja hluta af hverjum vita út. Þetta sé breyting frá því sem áður var þegar menn sáu ekki nýtingamöguleika með þessar byggingar, enda voru þær langt í burtu frá öllu og fjarri nútíma þægindum. Í dag hafi þetta aftur á móti breyst heilmikið með auknum ferðamannastraumi þar sem það sé jafnvel eftirsóknavert að vera á fjarlægum, en einstökum stað.

Hugmyndin að útleigu vitanna er að sögn Sigurðar sótt í erlendar fyrirmyndir. Hann tekur þó fram að vitar séu enn öryggistæki fyrir sjófarendur, en að aðeins lítill hluti bygginganna sé nýttur á þann hátt. „Með þessu er verið að reyna að koma þeim aftur í virkni og nýtingu,“ segir Sigurður. Hann tekur fram að margir vitar uppfylli væntanlega ekki kröfur og reglugerðir sem þarf fyrir rekstrarleyfum.

Nokkrir vita nú þegar í útleigu

Nokkrir vita hafa verið í notkun í öðrum verkefnum en bara sem öryggistæki og bendir Sigurður á Akranesvita, Garðskagavita, Gróttuvita og Hornbjargsvita sem dæmi um slíkt. Í Akranesvita kom sveitarfélagið fyrir menningarmiðstöð og í Garðskagavita er safn og nálægur veitingastaður. Seltjarnarnesbær hefur svo að einhverju leyti nýtt Gróttuvita í menningarlegum tilgangi. Hornbjargsviti hefur aftur á móti verið leigður út til Ferðafélags Íslands fyrir ferðafólk sem er að ganga á Hornströndum.

„Í dag er þetta allt annað

Sigurður segir að útleigan hingað til hafi oftast verið í því formi að leigutaki haldi vitunum við, en eins og fyrr segir á það sér eldri sögu tengt því að ekki hafi verið mikil eftirspurn eftir að nýta þá hingað til. „Það gengur gengur hins vegar ekki upp,“ segir hann um fyrirkomulagið ef farið yrði í frekari útleigu. „Í dag er þetta allt annað, er hægt að skapa atvinnutækifæri og tekjur fyrir viðkomandi. Þá er eðlilegt að taka gjald,“ segir Sigurður og bætir við að með þessu geti vitarnir farið í gegnum endurnýjun lífdaga sinna og í leiðinni skapað ákveðin tækifæri. Segir hann að ef til útleigu komi muni það vera gert með útboði og væntanlega yrði horft til langtímaleigu.

Hann viðurkennir þó að það séu ekki allir alveg sáttir með þessa leið og sumri vilji jafnvel loka vitum alfarið fyrir almenningi eða mögulegum leigutökum. Það muni þó koma betur í ljós þegar á líði, enda er þessi hugmynd enn á byrjunarstigum, segir Sigurður.

Garðskagaviti hefur meðal annars verið nýttur sem safn síðustu ár.
Garðskagaviti hefur meðal annars verið nýttur sem safn síðustu ár. Brynjar Gauti
Vitinn í Dyrahólaey var leigður út til Icelandair hotels. Vegagerðin …
Vitinn í Dyrahólaey var leigður út til Icelandair hotels. Vegagerðin skoðar nú útleigu á fleiri vitum. Mynd/Jónas Erlendsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert