Ekki hefur verið ákveðið hvort byggð verði brú til bráðabirgða yfir Vatnsdalsá í Vatnsdal eða hvort byggð verði ný brú í stað þeirrar sem hrundi í gær þegar flutningabíll með farm í eftirvagni ók yfir hana. Búið er að ná flutningabílnum upp úr ánni en hann er mikið skemmdur.
Lögregla á Blönduósi kom á vettvang í gær ásamt Vegagerðinni. Þá hefur rannsóknarnefnd samgönguslysa einnig komið að málinu. Vegagerðin mun hafa samráð við sveitarfélagið vegna nýrrar brúar en verði ákveðið að byggja ekki brú til bráðabirgða, heldur aðeins nýja brú, verður hún ekki tekin í notkun fyrr en í vetur eða í vor.
Frétt mbl.is: Brúin var komin til ára sinna
„Það er enginn innilokaður en þetta er óhagræði fyrir póstinn, skólabílinn og alla,“ segir Guðmundur Valur Guðmundsson, verkfræðingur hjá Vegagerðinni og bætir við að ákvörðun verði tekin á næstu dögum. Brúin var orðin rúmlega sextíu ára gömul en engar þungatakmarkanir voru á henni.
Frétt mbl.is: Efri brúin yfir Vatnsdalsá hrundi