Gefur lítið fyrir svör Landsbankans

Elliði Vigfússon bæjarstjóri í Vestmannaeyjum
Elliði Vigfússon bæjarstjóri í Vestmannaeyjum mbl.is/Árni Sæberg

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, gefur lítið fyrir svör Landsbankans um að hafna því að veita frekari upplýsingar um þá ákvörðun að byggja höfuðstöðvar bankans við Austurhöfn í Reykjavík. Segist hann telja að landsmenn eigi allir, sem eigendur bankans, kröfu um að sjá þessi gögn áður en bankinn byggi á lóðinni, sem hann segir þá dýrustu á landinu.

Vestmannaeyjabær fór fram á það við stjórn bankans að halda nýjan hluthafafund og greina frá þeim rökum sem stæðu á bak við ákvörðunina og auk þess svara frekari spurningu bæjarins um uppbygginguna. Bankinn svaraði í bréfi til Elliða að beiðni um fund væri hafnað og þá væri ekki hægt að veita einstaka hluthöfum upplýsingar umfram aðra.

Sniðganga spurningu bæjarins

Aðspurður um viðbrögð við bréfi bankans segir Elliði að hann fagni því fyrst að Landsbankinn hafi ítrekað að málið sé nú allt til endurskoðunar, „ að það sé ekki tekið sem gefið að höfuðstöðvar Landsbankans og aðstæða til bakvinnslu verði á dýrustu lóð í landinu,“ segir hann. Það kemur Elliða aftur á móti á óvart að „starfsmenn bankans og stjórn hans skuli í þessu bréfi sneiða hjá því að svara spurningu sem Vestmannaeyjabær beinir til þeirra.“

„Þá teldi ég eðlilegast að þessi banki okkar landsmanna allra birti einfaldlega svör við þessum spurningum og veiti okkur öllum eigendum, sem eru allir landsmenn, aðgengi að þeim gögnum sem hafa verið unnin vegna þessa máls,“ segir Elliði um svör bankans og bætir við að landsmenn hljóti að vilja sjá samanburð á kostum þess að byggja á þessari lóð og öðrum lóðum. Segir hann að bankaleynd geti ekki átt við í þessu samhengi.

Kemur á óvart ef bankasýslan undirgengst þessi málalok

Elliði segist einnig hnýta um það í bréfinu að starfsmenn og stjórn skuli ekki telja ástæðu til að fjalla um þessa fyrirhuguðu nýbyggingu á hluthafafundi, í ljósi þess að málið er til endurskoðunar. Segir hann það hvarfla að sér að stjórnendur bankans telji þessa stefnumótun falla utan sviðs eigenda bankans. „Því er ég bara ósammála,“ segir Elliði.

Hann vill að boðað sé til hluthafafundar vegna málsins og segir það koma sér á óvart ef bankasýslan, sem fer með eignarhlut landsmanna, sé tilbúin að undirgangast það að stjórn bankans ákveði að halda ekki hluthafafund vegna málsins..

Segir Elliði það ekki skipta máli þótt byggingin hafi verið rædd á fyrri fundum. Nú sé það til endurskoðunar og að fyrri ákvörðun sé núna til endurskoðunar. „Og hverjir eiga að endurskoða það ef ekki eigendurnir?“ spyr hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka