Enn hefur ekki verið borin kennsl á lík karlmannsins sem fannst við Sauðdrápsgil í Laxárdal í Nesjum í gær. Réttarkrufning fór fram í gær en niðurstaða hennar liggur ekki fyrir. Engar vísbendingar hafa borist frá almenningi vegna málsins og leitað verður í innlendum og erlendum gagnasöfnum í von um að varpa ljósi á málið.
Um er að ræða lík af ungum karlmanni um það bil 186 sentímetrar á hæð með ljóst axlasítt hár klætt í svarta strigaskó með hvítri stjörnu á hlið, dökkblár íþróttabuxur og hettupeysu með áletrunina „QUICKSILVER“. Í tilkynningu sem barst frá lögreglu í gær kom fram að ætla megi að maðurinn hafi látist fyrir einhverjum mánuðum síðan.
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Suðurlandi, segir í samtali við mbl.is að göngufólk hafi gengið fram á líkið en allajafna er lítil umferð um svæðið.
Enginn farangur fannst á svæðinu sem gæti hafa tilheyrt manninum og þá fundust engin skilríki sem gætu gefið vísbendingar um manninn. Líkið var ekki illa farið en ljóst þykir að það hafi verið í dalnum í nokkurn tíma.
Aðspurður segir Sveinn Kristján að einskis sé saknað á svæðinu og engar vísbendingar hafi borist frá almenningi vegna málsins og lögregla hafi ekki mikið í höndunum vegna rannsóknar málsins sem stendur.
Bindur lögregla vonir við að niðurstaða réttarmeinarannsóknar sem stendur yfir varpi ljós á andlát mannsins en rannsóknin gæti þó tekið nokkurn tíma. Mögulega verður hægt að nota tannlæknagögn, fingraför eða önnur sýni til að bera kennsl á manninn og mun lögregla bæði nýta sér innlend og erlend gagnasöfn.
Frétt mbl.is: Líkfundur í Laxárdal á Nesjum
Tilkynningin um líkið barst á fimmta tímanum í gær og fóru lögreglumenn á Höfn þegar á vettvang. Landhelgisgæslan lagði til þyrlu til að flytja rannsóknarlögreglumann frá rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi, lögreglumenn úr Kennslanefnd ríkislögreglustjóra, rannsóknarlögreglumann frá Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðisins og réttarlækni á staðinn.
Lögreglan á Suðurlandi biðlar til allra þeirra sem gætu veitt upplýsingar sem gætu átt við lýsingu hér að ofan að hafa samband í síma 842 4250, í gegnum Facebook-síðu embættisins eða í gegnum tölvupóst, sudurland@logreglan.is