Sigurður Ingi Þórðarson, sem ríkissaksóknari hefur ákært fyrir kynferðisbrot, tók sér frest til að taka afstöðu til ákærunnar við þingfestingu málsins fyrir Héraðsdómi Reykjaness í morgun.
Málinu var því næst frestað fram til föstudagsins 28. ágúst, en þá mun hann láta uppi afstöðu sína.
Sigurður Ingi, sem er betur þekktur undir nafninu Siggi hakkara, er ákærður fyrir kynferðisbrot gegn níu piltum.
Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald í fyrra, en í gæsluvarðhaldsúrskurðinum, sem var kveðinn upp í Hæstarétti þann 5. nóvember síðastliðinn, kom fram að lögreglan væri að rannsaka meint brot hans gegn ellefu drengjum. Munu brotin gegn drengjunum varða þau ákvæði hegningarlaga er snúa að nauðgun, samræði við börn undir fimmtán ára aldri, tælingu barna til samræðis og fégreiðslu fyrir vændi og vændi barns.
Tvö þessara meintu brota leiddu ekki til ákæru.
Þá var hann á síðasta ári dæmdur í tveggja ára fangelsi, meðal annars fyrir fjársvik. Áður hefur hann einnig verið dæmdur fyrir að hafa tælt sautján ára dreng til að stunda við hann kynmök með blekkingum.
Þinghald í málinu er lokað.