Guðmundur Steingrímsson hættir sem formaður Bjartrar framtíðar

Guðmundur Steingrímsson hættir sem formaður Bjartrar framtíðar á ársfundi flokksins …
Guðmundur Steingrímsson hættir sem formaður Bjartrar framtíðar á ársfundi flokksins þann 5. september næstkomandi. mbl.is/Kristinn

Guðmund­ur Stein­gríms­son hætt­ir sem formaður Bjart­ar framtíðar á árs­fundi flokks­ins sem hald­inn verður þann 5. sept­em­ber næst­kom­andi. Ró­bert Mars­hall ætl­ar einnig að láta af embætti þing­flokks­for­manns flokks­ins.

Guðmund­ur og Ró­bert greindu flokks­mönn­um Bjartr­ar framtíðar frá þessu á fundi á fimmtu­dag­inn. Guðmund­ur seg­ist í sam­tali við mbl.is telja þessa ákvörðun þeirra vera skyn­sam­lega og rétta.

„Mig lang­ar að sjá flokk­inn þannig að hann snú­ist ekki bara um ein­stak­linga. Auðvitað eig­um við að skipt­ast á að ganga í þessi for­ystu­hlut­verk,“ seg­ir Guðmund­ur en hann hyggst leggja fram til­lögu á árs­fund­in­um um að það verði form­lega í lög­um fé­lags­ins að ein­stak­ling­ar skipt­ist á að gegna for­ystu­hlut­verk­um í flokkn­um.

Slæmt gengi flokks­ins hafði áhrif á þessa ákvörðun

Aðspurður hvort slæmt gengi flokks­ins í skoðana­könn­un­um hafi haft áhrif á þessa ákvörðun seg­ir Guðmund­ur svo vera, að hluta til.

„Auðvitað er gengið slæmt og þegar þær radd­ir vakna gæti verið skyn­sam­legt að skipta um fólk í for­ystu. Mér finnst al­veg sjálfsagt að gera það,“ seg­ir Guðmund­ur en bæt­ir við að þeir Ró­bert muni sitja áfram á þingi. „Ég er ekki að fara neitt, og Ró­bert ekki held­ur.“

Guðmund­ur seg­ir eng­in átök vera inn­an flokks­ins en „fólk verður auðvitað hund­fúlt þegar fylgið fer svona niður og er lengi niður. Það hef­ur slæm áhrif á stemn­ing­una,“ seg­ir hann.

Það er mik­il ein­föld­un að segja að gengi Bjartr­ar framtíðar velti á ein­um manni, eða einu embætti að sögn Guðmund­ar og tel­ur hann að ákvörðun hans um að stíga til hliðar verði til þess að leysa úr læðingi kraft inn­an flokks­ins og að fleiri axli ábyrgð á slæmu gengi flokks­ins.

„Ég hef trú á okk­ar hug­sjón­um og þeim brýnu stefnu­mál­um sem við töl­um fyr­ir. Á tím­um þar sem upp­gang­ur er í ein­angr­un­ar­hyggju og þjóðern­ispo­púl­isma er mjög mik­il­vægt að Björt framtíð sé til,“ seg­ir Guðmund­ur.

Guðmund­ur kaus að tjá sig ekki um hver væri lík­leg­ur eft­ir­maður hans í embætti, og seg­ir ákvörðun­ina vera í hönd­um flokks­manna Bjartr­ar framtíðar. Sam­kvæmt heim­ild­um Frétta­blaðsins, sem greindi fyrst frá því að Guðmund­ur ætlaði að láta af for­mann­sembætt­inu, hef­ur Bryn­hild­ur Pét­urs­dótt­ir, þingmaður Bjartr­ar framtíðar, verið nefnd sem mögu­leg­ur eft­ir­maður Guðmund­ar.

„Ég myndi segja að það væri skyn­sam­legt að ann­ar formaður­inn sæti á þingi, en flokks­menn ráða þessu bara. Það er fullt af fram­bæri­legu fólki í Bjartri framtíð,“ seg­ir hann.

Róbert Marshall lætur af embætti þingflokksformanns Bjartrar framtíðar á ársfundi …
Ró­bert Mars­hall læt­ur af embætti þing­flokks­for­manns Bjartr­ar framtíðar á árs­fundi Bjartr­ar framtíðar. mbl.is/​Ern­ir
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert