Isavia hefur ekki í hyggju að gera breytingar á verslunarrými Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á næstunni og engar viðræður eru í gangi við nýja rekstraraðila. Þetta kemur fram í svari Isavia við fyrirspurn mbl.is, en um helgina gaf Eyjólfur Pálsson, forstjóri Epal, til kynna að breytinga væri að vænta sem tengdust íslenskri hönnun og sölu slíkrar vöru í flugstöðinni.
Um áramótin var verslun Epal lokað í flugstöðinni, en hún fékk ekki áframhaldandi rekstrarleyfi eftir útboðsferli Isavia á veitinga- og verslunarrýmum í flugstöðinni.
Eyjólfur hafði verið gestur í þættinum Á Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudagsmorguninn þar sem hann gaf í skyn að væntinga væri að vænta. Þegar mbl.is leitaði frekari skýringa á þessum orðum hans sagði hann að mjög líklegt væri að breytingar yrðu á ákvörðun Isavia í sambandi við það hversu hátt íslenskum vörum væri gert undir höfði og nefndi hann að engin önnur búð væri betur til þess fallin að sinna slíku verkefni.
Í svari Isavia segir að þótt ekki sé gert ráð fyrir breytingum og engar viðræður séu í gangi, þá hvetji fyrirtækið verslanir í flugstöðinni til að bjóða sem fjölbreyttasta úrval af íslenskri hönnun og mun fagna öllum áformum verslunaraðila um að auka úrval sitt á því sviði.
Þá segir að í þeim breytingum sem er nýlokið við á svæðinu hafi íslenskri hönnun verið gert hátt undir höfði og fjölmargir íslenskir hönnuðir og arkitektar tekið þátt í því ferli. Til dæmis eru munir frá hundruðum íslenskra hönnuða og handverksfólki til sölu í verslun Rammagerðarinnar og í verslun Airport Fashion er boðið uppá fatnað frá íslenskum fatahönnuðum í miklum mæli, segir í svarinu.