Rannsókn á tveimur fjárkúgunarmálum sem komu upp fyrr í sumar er langt komin en er enn ólokið. Að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu gengur vel að rannsaka málin en erfitt er að segja til um hvenær rannsókn lýkur. Önnur fjárkúgunin beindist að forsætisráðherra.
Eins og fram hefur komið handtók lögreglan á höfuðborgarsvæðinu systurnar Hlín Einarsdótttur og Malín Brand í tvígang. Fyrst eftir að þær gerðu tilraun til að kúga fé af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra en hann fékk bréf sent heim til sín þar sem peninga var krafist í skiptum fyrir þagmælsku.
Nokkrum dögum síðar voru systurnar kærðar fyrir aðra fjárkúgun. Karlmaður kærði þær fyrir að hafa haft af sér 700 þúsund krónur. Systurnar sögðu þá peninga vera miskabætur vegna nauðgunar en maðurinn á að hafa nauðgað Hlín. Eftir að maðurinn kærði fjárkúgunina kærði Hlín hann fyrir nauðgun.