„Það er gott að lesa“

Markmiðið er að öll börn geti við lok grunnskóla lesið …
Markmiðið er að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns. mbl.is/Styrmir Kári

„Það er gott að lesa“ syngur Ingó Veðurguð í lagi sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur gefið út á vef sínum, í tengslum við Þjóðarsáttmála um læsi. Í haust mun ráðuneytið í samvinnu við sveitarfélög og skóla vinna að sáttmálanum með það að markmiðið að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns.

Margir kannast eflaust við lagið, sem heitir upprunalega „Það er gott að elska“ og er eftir Bubba Morthens. Sjálfur samdi hann nýjan texta lagsins, þar sem börn og foreldrar eru hvött til að lesa meira.

Gott læsi er nauðsynlegt til að hver og einn geti nýtt hæfileika sína til fulls samfélaginu öllu til góða,“ segir á vef ráðuneytisins. Þar kemur fram að framlag ráðuneytisins til Þjóðarsáttmála um læsi verði í formi ráðgjafar, stuðnings, lesskimunar og aukins samstarfs við foreldra.

„Til að ná markmiði Þjóðarsáttmála um læsi þarf að grípa til margvíslegra aðgerða sem ráðuneytið mun styðja við á ýmsan hátt. Mikilvægur þáttur í því er að ríki og sveitarfélög ákveði sameiginlega að bæta læsi barna á Íslandi til framtíðar. Þar skiptir sköpum skýr markmiðssetning um árangur í læsi, ákvörðun um eftirfylgni og framlag skólastjórnenda, kennara, foreldra og annarra aðstandenda.“

Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, mun á næstu vikum ferðast um landið og undirrita Þjóðarsáttmála um læsi með bæjar- og sveitarstjórum. Eru ríki og sveitarfélög þá skuldbundin til að vinna að því með öllum tiltækum ráðum að ná settu markmiði um læsi. 

Undirritun verður kl. 9.30 í dag í Borgarbókasafni með borgarstjóra Degi B. Eggertssyni, kl. 13.30 í Gljúfrasteini með bæjarstjóra Mosfellsbæjar og kl. 16.00 í Valhúsaskóla með bæjarstjóra Seltjarnarness.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert