Brynhildur Pétursdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar, segist nú íhuga hvort hún gefi kost á sér í forystusveit flokksins á ársfundi hans í næsta mánuði. Heiða Kristín Helgadóttir, einn af stofnendum flokksins, hefur hvatt hana til þess að bjóða sig fram í formannskjörinu.
Brynhildur segist í samtali við mbl.is ekki hafa tekið neina ákvörðun um mögulegt framboð. Hún segist þó vera opin fyrir því að gefa kost á sér og bendir á að kosið verði um þrjú embætti á fundinum, formann, stjórnarformann og þingflokksformann.
„Það er allt opið, getum við sagt. Mér finnst þetta verða að koma í ljós. Við munum finna lausn á þessu.“
Brynhildur segist vera spennt fyrir hugmyndinni um að skipt verði reglulega um fólk í embættum og stjórn flokksins. „Við munum skoða það alvarlega að hafa einhvers konar róteringakerfi til þess að taka fókusinn af þessum embættum og deila ábyrgðinni. Það skiptir máli hvernig sú tillaga fer á þinginu. Ég sé ekki fyrir mér að við séum að fara að kjósa formann til næstu tíu ára, svona eins og gæti verið hjá hefðbundnum flokki,“ segir hún.
Heiða Kristín sagðist í morgun ekki ætla að gefa kost á sér í formannskjöri Bjartrar framtíðar. Hún mun taka sæti á Alþingi í haust sem varaþingmaður Bjartar Ólafsdóttur.
Leit stendur yfir að arftökum formanns og þingflokksformanns flokksins eftir að þeir báðir, Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall, tilkynntu að þeir myndu láta af embætti.