Heiða Kristín býður sig ekki fram

Heiða Kristín Helgadóttir.
Heiða Kristín Helgadóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Heiða Kristín Helgadóttir, einn stofnenda og fyrrverandi stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, hefur ákveðið að bjóða sig ekki fram til formanns flokksins. Hún greindi frá þessu á Twitter-síðu sinni í morgun.

Heiða Kristín, sem er varaþingmaður flokksins, segist ætla að taka sæti á Alþingi í haust í fæðingarorlofi Bjartar Ólafsdóttur.

„Ég hef ákveðið að bjóða mig ekki fram til formanns Bjartrar framtíðar. Breytingarnar sem BF er að ganga í gegnum snúast ekki um mig eða minn metnað heldur um það að flokkurinn geti endurvakið áhuga kjósenda og fundið neistann sem til þarf til að hrífa aðra með. Metnaður minn liggur í því að leggja því verkefni lið og ég met stöðuna þannig að það verði best gert með því að ég taki sæti á Alþingi í haust í fæðingarorlofi Bjartar Ólafsdóttur og veiti nýrri forystu stuðning til góðra verka. Þar vil ég sjá konu fremsta meðal jafninga,“ segir hún á Twitter-síðu sinni.

Óttarr Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagðist í samtali við Morgunblaðið á mánudaginn vera tilbúinn til forystustarfa í flokknum, verði hann kallaður til þess, en leit stendur nú yfir að arftökum formanns og þingflokksformanns flokksins eftir að báðir, Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall, tilkynntu að þeir myndu láta af embætti eftir mikið fylgistap í skoðanakönnunum.

Formannskjör fer fram á ársfundi flokksins í september.

Fréttir mbl.is:

Guðmundur Steingrímsson hættir sem formaður Bjartrar framtíðar

Nauðsynleg hreinsun átti sér stað

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert