Höfnuðu tillögu sjálfstæðismanna

Byggingarlóð Landsbankans í miðborginni er rétt við Hörpu.
Byggingarlóð Landsbankans í miðborginni er rétt við Hörpu. mbl.is/Eggert

Meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar vísaði í dag frá tillögu sjálfstæðismanna um að endurskoða skipulag lóðar Landsbankans við Austurhöfn.

Sjálfstæðismenn höfðu lagt til að það svigrúm sem skapast hefði með ákvörðun stjórnenda bankans um að fresta hönn­un­ar­sam­keppni um fyr­ir­hugaða ný­bygg­ingu bank­ans sem átti að hefjast í þessum mánuði, yrði nýtt til að vinna með bankanum að því að finna viðunandi framtíðarstaðsetningu í borginni fyrir höfuðstöðvar hans.

Skipulag lóðar bankans á Austurbakka yrði endurskoðað og efnt til samkeppni um nýtingu lóðar Landsbankans og leitað eftir hugmyndum frá fagfólki og almenningi um það hvernig lóðin muni best nýtast í heildarsamhengi miðborgarinnar.

Í bókun sjálfstæðismanna á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í dag segir að afstaða fulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna veki furðu.

„Tillaga um að fara betur yfir skipulag á einni mikilvægustu lóð miðborgarinnar er hafnað á þeim forsendum að það þoli ekki bið að fylla holu. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægara að hugsa til framtíðar og vanda alla skipulagsvinnu. Sú afstaða meirihlutans að allt sem í eina tíð var ákveðið í borgarskipulagi skuli standa óhaggað lýsir hvorki metnaði né hugmyndauðgi hans.

Frávísunartillaga meirihlutans er ódýr leið til að losna undan því að taka afstöðu til tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins,“ segir í bókuninni.

Frétt mbl.is: Vilja endurskoða skipulag lóðarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka