Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur samþykkti samhljóða á fundi sínum að fela sviðsstjóra að útbúa hugmyndir um gjaldtöku við Nauthólsvík allan ársins hring.
Um var að ræða tillögu meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. í greinargerð sem fylgdi með tillögunni kemur fram að Reykjavíkurborg greiði þjónustu við Nauthólsvík svo sem búningsklefa, heitan pott og gufu og starfsmenn allan ársins hring. Eðlilegt er að iðkendur greiði fyrir þá þjónustu sem þar er veitt.
Margir fóru til dæmis í sjósund og sólbað í Nauthólsvík í blíðunni í gær og margt var um manninn í heita pottinum þar.
Heimsóknir á ylströndina í Nauthólsvík hafa verið talsvert fleiri í sumar en í fyrrasumar, að sögn Hafdísar Gísladóttur, rekstrarstjóra ylstrandarinnar í samtali við Morgunblaðið í lok júlí. „Þetta er búið að vera alveg frábært, við höfum séð mikla aukningu í aðsókn. Þó er það þannig að fjöldinn dreifist á góðu dagana. Við áætlum að þegar mest er heimsæki ströndina um 5.000 manns á dag,“ segir hún.
Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur