Aðild að ESA spennandi kostur

Danir eru aðilar að ESA en Andreas Mogensen verður fyrsti …
Danir eru aðilar að ESA en Andreas Mogensen verður fyrsti Daninn til að fara út í geim þegar hann fer til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar 2. september. AFP

Kostnaðurinn var það sem stóð í fólki þegar möguleg aðild Íslands að evrópsku geimstofnuninni (ESA) var til umræðu fyrir um tíu árum, að sögn Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands. Hann telur aðild hins vegar spennandi kost og að ekki megi vanmeta hverju hún gæti skilað Íslandi.

Mark McCaughrean, yfirmaður vísindarannsókna og geimkönnunar ESA, sagði í viðtali við mbl.is á mánudag að Íslendingar gætu lagt sitt af mörkum til stofnunarinnar, sérstaklega á sviði jarðvísinda og loftslags- og umhverfisathugana. Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins og formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, tók undir það í viðtali við mbl.is í gær og benti á að Ísland myndi fá framlög til ESA margfalt til baka í formi verkefna fyrir íslensk fyrirtæki og stofnanir.

Jón Atli segir að honum litist vel á að Ísland gerðist aðildarríki ESA. Málið hafi komið upp fyrir um tíu árum og fengið jákvæða umfjöllun en þá hafi fólk sett kostnaðinn fyrir sig. Eins og McCaughrean hafi hins vegar bent á miðast framlög ríkja við landsframleiðslu og fé sé varið í ríkjunum í hlutfalli við þau.

„Íslendingar myndu njóta góðs af því að þetta kæmi til baka inn í okkar kerfi sem er mjög jákvætt. Ég held að það séu gríðarlega mikil sóknarfæri í því að taka þátt í þessu starfi. Bæði varðandi geimvísindi, jarðvísindi, umhverfismál og þar fram eftir götunum. Þarna höfum við Íslendingar mjög mikið fram að færa og getum notið góðs af þessu samstarfi,“ segir rektor.

Alþjóðlegt samstarf Íslendingum nauðsynlegt

Jarðvísindi skipti Íslendinga miklu eins og vel er þekkt en Jón Atli bendir á að við eigum góða vísindamenn í geimvísindum. Þannig sýni tölfræði háskólans um vísindabirtingar að við séum sterk á því sviði.

„Þetta er ekki stærsta sviðið hjá okkur en áhrifamáttur þeirra vísindagreina sem hafa birst á undanförnum árum er mjög mikill og við höfum þess vegna mikið fram að færa. Okkar vísindamenn munu njóta góðs af því og íslenskt samfélag í það heila að taka þátt í svona samstarfi,“ segir hann.

Íslenskir vísindamenn séu einir þeir virkustu í heimi í þátttöku í alþjóðlegu samstarfi enda segir Jón Atli það nauðsynlegt fyrir eyju í norðurhöfum. Þátttaka í samstarfsverkefnum skili sér til samfélagsins. 

Þá bendir hann á að fjarkönnun skipti Íslendinga verulegu máli, til dæmis fyrir greiningu á umhverfisbreytingum, loftslagsbreytingum, virkni eldfjalla, breytingum á jöklum og svo framvegis. Við fáum aðgang að hluta fjarkönnunargagna ESA í gegnum aðild okkar að evrópsku umhverfisstofnuninni. Með aðild að ESA fengum við hins vegar fullan aðgang að fjarkönnunargögnunum.

Fagnar því að umræðan sé farin aftur af stað

Stjórnvöld eða fyrirbæri eins og vísinda- og tækniráð, sem Jón Atli situr í, þyrftu að taka mögulega aðild Íslands að ESA til skoðunar. Jón Atli segist ekki átta sig nákvæmlega á hversu mikill kostnaðurinn gæti orðið en bendir á að ekki megi vanmeta hversu miklu aðild gæti skilað okkur.

„Ég held að það væri eðlilegt að taka þetta upp á vettvangi vísinda- og tækniráðs eða að mennta- og menningarmálaráðuneytið gæti tekið þetta upp. Ég held að það væri nauðsynlegt að gera það og koma umræðunni aftur af stað. Ég fagna því að hún sé komin af stað aftur,“ segir rektor.

Fyrri fréttir mbl.is:

Gætum lagt okkar fram til geimkönnunar

Peningunum ekki hent út í geim

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert