Maður villtur á Heklu

Hekla.
Hekla. mbl.is/Sigurður Sigmundsson

Björgunarsveitir frá Hvolsvelli og Hellu hafa verið kallaðar út vegna erlends ferðamanns sem er villtur á Heklu. Einnig hefur hópur á hálendisvakt björgunarsveita sem staddur var í Landmannalaugum verið fenginn til aðstoðar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörgu. Þar segir að maðurinn hafi verið á göngu með föður sínum en þeir urðu viðskila á fjallinu fyrr í dag.

Maðurinn hringdi í Neyðarlínuna og náði að segja að hann væri staddur á eldfjalli áður en sambandið rofnaði. Stuttu síðar náði hann svo símasambandi við föður sinn sem beið hans í bíl þeirra á planinu við rætur Heklu.

Faðirinn kallaði eftir aðstoð.

„Ekki hefur gengið að koma svokölluðum RescueMe boðum til mannsins en líklegt er talið að sími hans sé straumlaus. Sé RescueMe boðum svarað berast nákvæmar upplýsingar um staðsetningu símans til þeirra sem boðin senda,“ segir í tilkynningu Landsbjargar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert