Vegurinn norðan Bjarnafjarðar á Ströndum er lokaður vegna skriðufalla og vatnavaxta, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.
Spáð er norðan og norðaustan hvassviðri norðvestan og vestan til fram eftir degi og með því er von á snörpum vindhviðum við fjöll. Einnig er von á mikilli rigningu á Ströndum til hádegis.
Siglufjarðarvegur er lokaður vestan við Strákagöng vegna skriðufalla en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri þurfti að loka veginum eftir að tvær aurskriður féllu á hann um ellefu leytið í gærkvöldi. Einhverjir ferðamenn lokuðust hinum megin við spýjurnar en fengu gistingu í nótt.
Starfsmenn Vegagerðarinnar mun kanna aðstæður með morgninum og opna veginn á ný en hægt er að komast frá Siglufirði um Héðinsfjarðargöngin og Ólafsfjörð. Áður en Héðinsfjarðargöng komu þá hefði þetta þýtt að leiðin til Siglufjarðar væri ófær en svo er ekki nú.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni hefur talsvert rignt talsvert fyrir norðan í gærkvöldi og nótt en í viðvörun frá veðurfræðingum Veðurstofu Íslands gengur úrkoma yfir landið norðan- og austanvert á fimmtudag og föstudag. Sérstaklega er varað við úrkomu á norðanverðum Ströndum og norðanverðum Vestfjörðum en þar gæti skriðuhætta aukist. Búast má við verulegu afrennsli á norðanverðu landinu og frá jöklum miðhálendisins. Ferðafólk er hvatt til að gæta varúðar.
Veðurspá fyrir næsta sólarhring:
Norðaustlæg átt, 13-20 m/s norðvestan- og vestan til, en 5-13 annars staðar. Víða súld eða rigning, en úrkomulítið sunnan- og suðvestanlands. Mikil rigning á Ströndum fram undir hádegi. Fer að draga úr vindi norðvestan til á landinu eftir hádegi og léttir frekar til á Suðvestur- og Vesturlandi. Hiti 10 til 16 stig sunnan heiða, en 3 til 10 stig fyrir norðan.
Líkur á næturfrosti
Á laugardag:
Minnkandi norðlæg átt, 3-8 m/s undir kvöld. Léttskýjað suðvestanlands, annars skýjað með köflum, en víða dálítil væta austan til. Hiti 5 til 15 stig, hlýjast fyrir sunnan. Líkur á næturfrosti á Norðurlandi aðfaranótt sunnudags.
Á sunnudag:
Vestlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og skýjað um landið vestan vert, annars bjart með köflum, en líkur á dálítilli vætu suðaustanlands. Hiti 5 til 13 stig, hlýjast syðst.
Á mánudag, þriðjudag og miðvikudag:
Hæg vestlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum og þurrt að kalla. Hiti víða 8 til 13 stig að deginum.
Á fimmtudag:
Útlit fyrir milda vestlæga átt með skýjuðu og úrkomulitlu veðri.