Rannsaka aðstæður á vettvangi

Við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi.
Við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi. mbl.is/Ómar

Vettvangsrannsókn lögreglunnar á Suðurlandi og Rannsóknarnefndar samgönguslysa er lokið við Jökulsárlón þar sem banaslys varð í gær. Ekki hafa fengist upplýsingar um tildrögin en á meðal þess sem er til rannsóknar er hvort aðstæður á vettvangi eru ófullnægjandi í ljósi þess mikla fjölda sem heimsækir lónið.

Eins greint hefur verið frá, varð erlend kona á sextugsaldri undir hjólabát á planinu við þjónustumiðstöð lónsins. Konan var við lónið með fjölskyldu sinni þegar slysið varð. Talið er að konan hafi látist samstundis. Slysið varð síðdegis í gær og urðu margir vitni að því sem gerðist. Fólkinu hefur verið boðin áfallahjálp. 

Fyrirtækið sem rekur hjólabátinn aflýsti öllum ferðum í dag samkvæmt upplýsingum mbl.is, en önnur þjónustufyrirtæki hafa haldið starfsemi sinni áfram enda liggur þangað stríður straumur ferðamanna á hverjum degi. 

Samkvæmt samantekt sem Vatnajökulsþjóðgarður lét vinna yfir heimsóknir á á árunum 2005 til 2012 kemur fram, að 74.000 Íslendingar og um 180.000 erlendir ferðamenn hafi heimsótt Jökulsárlón árið 2012. Miðað við tölur um fjölgun ferðamanna má gera ráð fyrir að fleiri erlendir ferðamenn sæki lónið heim í ár. 

Deilur hafa lengi staðið um uppbyggingu varanlegrar aðstöðu fyrir ferðafólk á svæðinu austan við Jökulsárlón. Aðstaðan hefur lítið breyst undanfarin 20 ár og hefur þar af leiðandi ekki haldið í við þá miklu fjölgun ferðamanna sem hefur átt sér stað á síðastliðnum árum.

Ná ekki að anna þessu mikla fjölda

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli, segir í samtali við mbl.is að í vor hafi farið af stað vinna til að bæta slysavarnir á svæðinu með Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Sveitarfélaginu Hornafirði og öðrum hagsmunaðilum. Sveinn bendir á að sú vinna sé enn í gangi, en hún hefur m.a. beinst að því að koma í veg fyrir að fólk reyni að komast upp á jökla í lóninu. „Slysum verður aldrei forðað að öllu leyti þó að slysavarnir séu auknar, en vissulega þarf að auka þær gríðarlega allsstaðar,“ segir hann jafnframt.

Aðspurður segir Sveinn að það sama eigi við um Jökulsárlón sem og önnur stór ferðamannasvæði á landinu, þ.e. þau nái ekki að anna þeim mikla fjölda sem heimsæki þau. „Uppbygging á þessum stöðum hefur ekki náð að fylgja því eftir. Þetta gerist svo hratt,“ segir Sveinn og bætir við aðspurður að á meðal þess sem lögreglan sé að skoða eru aðstæður og aðgengi á vettvangi.

„Við skoðum orsökina og hvað veldur, og hvernig aðgengi fólks er á staðnum og hvernig aðgengi fólks er í kringum bílana og þessi tól og tæki.“

Spurður út í vettvangsrannsóknina segir Sveinn: „Þeir voru að í alla nótt og ég heyrði í þeim á milli ellefu og tólf og þá voru þeir [fulltrúar lögreglu og rannsóknarnefndarinnar] á leiðinni til baka inni á Höfn. Þannig að vettvangsvinnu er í raun lokið,“ segir hann. 

Ekki hefur verið greint frá nafni konunnar eða þjóðerni hennar, en búist er við að það verði gert í í kvöld eða á morgun.

Sjónarvottar fengu áfallahjálp

Lést við Jökulsárlón

Alvarlegt slys við Jökulsárlón

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert