Viðlagatrygging skoðaði aðstæður á Siglufirði

Ljósmynd/Þórir Kristinn Þórisson

Fulltrúar Viðlagatryggingar Íslands fóru á vettvang síðdegis í gær, 28. ágúst til að meta aðstæður í kjölfar vatnsflóðs í Hvanneyrará og aurskriðu í suðurbæ Siglufjarðar.  Vatnsflóðið í Hvanneyrará olli skemmdum á fasteignum þegar áin flæddi yfir bakka sína.  Ekki liggur fyrir hvort beint tjón hafi orðið á fasteignum af völdum aurskriðu. Þetta segir í tilkynningu frá Viðlagatryggingum Íslands.

Viðlagatrygging Íslands vátryggir gegn beinu tjóni af völdum eftirtalinna náttúruhamfara: eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða.

Forsenda bótaskyldu Viðlagatryggingar Íslands af völdum vatnsflóðs eru þær að ár eða lækir flæði skyndilega yfir bakka sína eða flóðbylgjur frá sjó eða vötnum gangi á land og valdi skemmdum eða eyðileggingu á vátryggðum munum.

Árleg eða reglubundin flóð úr ám, lækjum, sjó eða vötnum teljast hér ekki vatnsflóð.  Varðandi skriðufall er forsenda bótaskyldu þegar skriða úr fjalli eða hlíð fellur skyndilega á vátryggða muni með þeim afleiðingum að þeir skemmast eða eyðileggjast.

Viðlagatrygging Íslands vátryggir allar fasteignir og lausafé sem brunatryggt er hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi, auk þess eru opinber mannvirki skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 55/1992 vátryggð, þar á meðal hitaveitur, vatnsveitur og skolpveitur í eigu sveitarfélaga eða ríkissjóðs.

Eigendur og/eða forráðamenn framangreindra eigna sem vátryggðar eru hjá Viðlagatryggingu Íslands skulu tilkynna tjón á vef Viðlagatryggingar Íslands, www.vidlagatrygging.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert