„Staðan er ágæt. Við erum að hreinsa frárennslislagnir með hreinsibílum en möl, sandur og leir sest á lagnirnar og við verðum að hreinsa það og losa. Það tekur nokkra daga,“ segir Birgir Ingimarsson, bæjarverkstjóri á Siglufirði, við mbli.is.
Mikil rigning var á Siglufirði á föstudag og féllu nokkrar skriður, á fór úr farvegi sínum og flæddi um bæinn og margir kjallarar fylltust af vatni.
Frétt mbl.is: Íbúar reyna að bjarga eignum
„Það er búið að dæla upp úr öllum kjöllurum og fólk er að henda út ónýtum innréttingum og slíku, þar sem skemmdirnar urðu mestar. Við aðstoðum fólk líka við þetta.“ Birgir og hans menn skrá tjónið niður og tryggingafélög meta það síðan.
Birgir segir að það styttist í að Strákagöngin opni, þó það verði líklega ekki í dag. „Ég kíkti þarna út eftir áðan og þeir eru komnir í gegnum fyrstu skriðuna sem er hérna rétt norðan við bæinn. Ég held að það séu tvær skriður eftir út að Strákagöngunum sem þeir eiga eftir að fara í gegnum. Þetta gengur bara vel en ég reikna ekki með því að vegurinn opni í dag.“
Frétt mbl.is: „Þurfum fyrst og fremst að meta tjónið“
Aðspurður sagðist Birgir ekkert hafa heyrt í viðbragshópi forsætisráðherra, sem kom saman til fundar í gær vegna ástandsins á Siglufirði og Ólafsfirði. „Ég held að Gunnar Birgisson, bæjarstjóri, hafi heyrt í þeim. Það er bara verið að vinna í þessum málum.“