Síðdegis í gær, eftir sleitulausa vinnu alla helgina, fór að djarfa fyrir lokum hreinsunarstarfs á götum Siglufjarðarbæjar.
Kunnugir telja að skemmdir hafi orðið í um það bil tuttugu húsum við Lækjargötu, Eyrargötu og Túngötu og að minnsta kosti tvö eru óíbúðarhæf sem sakir standa. Tvær götur, Hólavegur og Fossvegur, fóru í sundur af völdum vatnsflóðanna. Þá féll skriða úr fjallhlíðinni sunnarlega í bænum og staðnæmdist á varnargarði þar, svo lítil skaði hlaust af, nema hvað vatn barst inn á götur.
Það var á fimmtudag sem rigna fór svo hressilega á Siglufirði og vatnsmagnið náði hámarki um hádegi þann dag. Samkvæmt reglubundnum mælingum Veðurstofu Íslands var úrkoman kl. 12 þann dag nánast dæmalaus, það er 11,6 millimetrar á klukkustund sem jafngildir 11,6 lítrum á hvern fermetra lands, að því er fram kemur í umfjöllun um hamfarirnar á Siglufirði í Morgunblaðinu í dag.