Grjótskriður stöðvuðust á snjóflóðavarnagörðunum sem byggðir hafa verið fyrir ofan byggðina í Siglufirði. Hins vegar komst vatn um kverkina þar sem garðar mætast og urðu skemmdir á fáeinum húsum í suðurhluta bæjarins vegna þess.
Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri segir vitað að það gæti gerst en ekki sé hægt að miða við þær hamfarir sem nú hafi orðið vegna úrkomu sem reikna megi með einu sinni á öld með tilheyrandi flóðum. Varnargarðarnir hafi gert sitt gagn.
Aðaltjónið á Siglufirði varð vegna flóða Hvanneyrarár, sem flæmdist úr farvegi sínum og fyllti fráveitukerfið á eyrinni. Þessa dagana er unnið að því að hreinsa aur úr holræsakerfi bæjarins en það réði ekki við vatnið sem flæddi um eyrina. Ekki hjálpaði að stórstreymt var, segir í Morgunblaðinu í dag.